Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á krabbameini í brjóstum. Starfsemi félagsins miðar að því að safna fé og efla styrktarsjóð félagsins til að taka þátt í því mikilvæga starfi að rannsaka eðli og uppruna brjóstakrabbameins.
Frá stofnun félagsins hefur Göngum saman úthlutað nær 150 milljónum í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna. Fyrsti styrkurinn var veittur árið 2007 en síðan hefur Göngum saman veitt styrki á hverju ári, nú síðast 15 milljónum króna í október 2023.
Að jafnaði er opnað fyrir umsóknir um styrki í júní ár hvert með umsóknarfresti í byrjun september. Vísindamenn og nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir geta sótt um styrk. Skilyrði er að verkefnið flokkist sem grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Ekki er veittur styrkur til tækjakaupa, birtingar vísindagreina í opnum aðgangi né ferðastyrkir.
Umsækjendur skulu fylla út umsóknareyðublað sem birtist hér á síðunni þegar opnað hefur verið fyrir umsóknir og senda ásamt fylgigögnum á netfangið styrkir@gongumsaman.is fyrir umsóknarfrest. Þá eru einnig birtar almennar upplýsingar og leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar.
Styrkir eru veittir skv. áherslum félagsins og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna. Stjórn Göngum saman áskilur sér rétt til að ákveða skiptingu styrkja, sem og að hafna öllum umsóknum.
Úthlutun styrkja fer fram í október en sá mánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini.