Skip to main content

Stóra gangan 2008

Árleg styrktarganga Göngum saman fór fram sunnudaginn 7. september 2008 á þremur stöðum á landinu. Þriðji staðurinn, Ísafjörður, bættist við tveimur dögum fyrir göngu, flott framtak hjá Ísfirðingum. Undirbúningur fyrir göngurnar í Reykjavík og á Akureyri hafði staðið nokkuð lengur.

Það var frábær stemming í öllum göngunum!

Í Reykjavík var gengið frá Árbæjarkirkju og fólk gat valið um þrjár vegalengdir; 10, 7 og 3 km. Um 900 manns gengu í Elliðaárdalnum þrátt fyrir slæmt veðurútlit um morguninn. Það stytti upp nokkru fyrir gönguna og mannfjöldinn gekk í þokkalegu veðri. Sjá myndir frá göngunni í myndaalbúminu.

Á Akureyri var lagt af stað frá hátíðasvæðinu í Kjarnaskógi og hægt var að velja milli þriggja vegalengda í skóginum; 7, 4 og 2,2 km. Um 150 manns gengu í ágætis veðri. Sjá myndir frá göngunni í myndaalbúminu.

Á Ísafirði gengu 20 manns sem er frábært því eins og fram kemur hér að framan var fyrirvarinn ansi stuttur. Sjá myndir úr göngunni á Ísafirði hér

Gjald í göngurnar var kr. 3000 sem fer í styrktarstjóð félagsins sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Frítt var fyrir börnin. Bleik buff með lógói félagsins var afhent þátttakendum við upphaf göngunnar og vöktu þau mikla lukku. Krakkarnir sem mættu í Elliðaárdalinn fengu einnig bleika blöðrur og settu þær skemmtilegan svip á dalinn.