Skip to main content

Mæðradagsganga 2012

Veturinn 2011-2012 var ákveðið að Mæðradagsganga Göngum saman yrði helsta styrktarganga félagsins og haustgangan félli niður. Mæðradagsgangan 2012 er því fyrsta vorganga félagsins sem flokkast undir stóru gönguna. Gangan fór fram á mæðradaginn sunnudaginn 13. maí. Enn fjölgar stöðunum þar sem gengið er og í ár var gengið á 14 stöðum. Víða var forskráning á föstudeginum og/eða laugardeginum og myndaðist við það tækifæri oft afar góð stemming.

Í vikunni fyrir göngu spáðu veðurfræðingar fyrir vitlausu veðri víðast á landinu og leist ýmsum illa á blikinu. Undirbúningsteymin létu það þó ekki slá sig út af laginu og héldu ótrauð áfram að skipuleggja göngu um allt land. Þegar nær dró helginni var ákveðið að flýta einni göngu, þ.e. göngunni frá Stórutjarnaskóla því spáin var slæm og þangað kom fólk lengra að en á þéttbýlisstöðunum. Mæðradagsgangan 2012 var fjölmennasta ganga Göngum saman en tæplega 1500 manns gengu um allt land.

Akranes: Gengið var frá sundlauginni á Jaðarsbökkum. Tvær vegalengdir voru í boði, 3 og 5 km.

Borgarnes: Það var slegist í för með pílagrímsgöngu á Borg á Mýrum og gengið að Borgarneskirkju. Göngufólk safnaðist síðan í Geirabakarí eftir gönguna og fékk sér brjóstabollur. Söluvarningur var einnig seldur þar til styrktar Göngum saman.

Stykkishólmur: Gangan hóst við sundlaugina kl. 11 og gengið var 5 km. Stykkishólmsbær bauð frítt í sund eftir göngu. Daginn áður var kynning og sölubás við Bónus og myndaðist þar góð stemming.

Patreksfjörður: Gengið var frá íþróttahúsinu Bröttuhlíð, upp í Mikladal og til baka. Hægt var að velja milli 3 og 5 km göngu. Varningur til styrktar Göngum saman var seldur við Bröttuhlíð.

Ísafjörður: Gengið var frá gamla sjúkrahúsinu og voru tvær vegalendir í boði, 3 og 7 km.

Siglufjörður: Lagt var af stað frá Torginu og lét hópurinn leiðinlegt veður ekki á sig fá. Eftir gönguna gæddi hópurinn sér á súpu hjá Ásgeiri á Torginu.

Akureyri: Gengið var frá Lystigarðinum og gengið um nágrennið í um klukkustund. Tvær vegalendir voru í boði og gangan við allra hæfi.

Stórutjarnaskóli: Þessari göngu var flýtt um einn dag vegna slæmrar veðurspár og því gengið laugardaginn 12. maí . Það var gengið frá Stórutjarnaskóla um hólana umhverfis skólann og síðan gæddi göngufólk sér á íslenksri kjötsúpu og brauði í matsal skólans. Stórutjarnaskóli bauð göngufólki í sund og heitan pott eftir gönguna.

Egilsstaðir: Gengið var frá bílastæðinu við Selskóg. Forskráning fór fram í Nettó dagana á undan og þar gat fólk fræðst um Göngum saman og styrkt félagið.

Reyðafjörður: Boðið var upp á hressandi klukkutíma göngu frá Stríðsárasafninu. Forskráning fór fram í Molanum á föstudeginum á undan og skapaði það góða stemmingu.

Frítt verður í sund fyrir göngufólk í Sundlaug Eskifjarðar og í Sundlauginni á Egilsstöðum.

Höfn: Gengið var frá sundlauginni og voru tvær vegalengdir í boði, 3 og 7 km. Að lokinni göngu fengu þátttakendur frítt í sund.

Hveragerði: Gengið var frá sundlauginni í Laugaskarði. Genginn var Ölfusborgarhringur sem tókr um klukkustund. Frítt í sundlaugina fyrir göngufólk eftir gönguna.

Reykjanesbær: Gangan hófst við Íþróttaakademíuna í Reykjanesbæ. Tvær gönguleiðir voru í boði, önnur rúmir 2 km og hin rúmir 5 km. Kaffisala var í Íþróttaakademíunni að göngu lokinni.

Reykjavík: Gengið var frá Skautahöllinni í Laugardal. Tvær vegalengdir voru í boði og lögð áhersla á að gangan væri við allra hæfi.