Styrktarganga Göngum saman 2013 fór fram á 14 stöðum á mæðradaginn 12. maí. Það var mikil þátttaka og góð stemming í göngunni um allt land.
Í Borgarnesi tóku rúmlega 30 konur og karlar þátt í göngunni og var þar sól og blíða allan tímann og allir með bros á vör. Gangan hófst með upphitun og síðan var gengið um bæinn, reglulega stoppaði hér og þar og skemmtilegar æfingar gerðar. Síðan var endað á jógaöndun á túninu við MB og rölt í Geirabakarí m/ möntruorð á vörum.
Í Stykkishólmi gengu 34 + 3 hundar 5 km í sól og blíðu. Síðan skelltu allir sér í sund í boði Stykkishólmsbæjar. Á laugardeginum var sölubás í Bónus og í sundlauginni fyrir gönguna og fengu færri en vildu boli.
Á Blönduósi gekk gangan ljómandi vel og það tóku um 50 manns þátt í henni. Berglind Björnsdóttir íþróttakennari kom fólki í gang og stjórnaði upphitun áður en lagt var af stað.
Þetta var frábær dagur á Siglufirði þar sem milli 60 og 70 manns mættu í gönguna í blíðu gönguveðri.
Á Akureyri gengu 250 manns í ágætis veðri. Byrjað var með smá innlegg um félagið í Lystigarðinum auk þess sem þar fór fram sala á varningi. Síðan var hitað upp og fólki skipt í tvær göngur. Það var mikil og góð stemming á Akureyri.
Það gengu um 50 manns á Egilsstöðum í fínu veðri og gekk hver á sínum hraða frá 2,5 til rúmlega 4 km leið.
Rúmlega 90 manns gengu í rigningunni á Reyðarfirði. Göngufólkið lét það ekki hafa áhrif á sig og var mikil stemmning hjá okkur í rigningunni. Gönguleiðir í boði voru 2,3 og 5 km. Hressing var í boði i bragganum við Stríðsárasafnið í göngulok. Bolir og höfuðklútir seldust vel.
Á Höfn gengu nær 50 manns í blíðskapar veðri, 3 og 7 km. Eftir gönguna fóru mjög margir í sund sem var í boði sundlaugarinnar. Margir náðu sér í bol eða hálsklút sem kron by kronkron hannaði fyrir Göngum saman.
Á Selfossi var mikil stemming en í ár var gengið í fimmta sinn á Suðurlandi og þátttakan sú besta hingað til. Gengið var frá Tryggvaskála, yfir Ölfusárbrú, upp með ánni yfir í Hellisskóg. Göngufólkið fékk hressingu í hellinum, vatn í boði Icelandic Glacial í Ölfusi og kaffisopa. Glatt var á hjalla og góð sala í bolum og buffum.
Í Reykjavík hefur gangan aldrei verið fjölmennari. Yfir 1100 manns gengu í blíðskaparveðri um Laugardalinn og var mikil gleði og stemming í göngunni. það var mikill hamagangur í sölunni og nýju bolirnir kláruðust. Þá var mikil gleði með hlutaveltuna sem haldin var eftir göngu og seldust allir miðar upp enda mikið um góða vinninga.