Þann 9. október sl. úthlutaði Göngum saman 10 milljónum króna í rannsóknarstyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman veitt alls rúmum 100 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007.
Fimm aðilar fengu styrk að þessu sinni:
Hildur Rún Helgudóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 500 þúsund krónur til verkefnisins „Ummyndunaráhrif HER2 yfirtjáningar í krabbameinsframvindu“.
Ólöf Gerður Ísberg, doktorsnemi í lyfjavísindum við Háskóla Íslands, hlaut tvær milljónir króna til verkefnisins „Smásameindir í greiningu brjóstakrabbameina“.
Pétur Orri Heiðarsson, lektor við Háskóla Íslands, hlaut 2,9 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk óreiðusvæða fyrir virkni umritunarþáttarins FoxA1“.
Salvör Rafnsdóttir, doktorsnemi í læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut tvær milljónir króna til verkefnisins „Stjórnun kæliviðbragðs frumna, mat á mögulegum meðferðarmöguleika fyrir ífarandi brjóstakrabbamein“.
Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við Háskóla Íslands, hlaut 2,6 milljónir króna til verkefnisins „Brjóstakrabbamein íslenskra karla, vægi stökkbreytinga í DNA viðgerðargenum“.