Styrktarganga Göngum saman 2011 fór fram sunnudaginn 4. september. Enn fjölgar stöðunum þar sem gengið er og í ár var gengið á 11 stöðum. Víða var forskráning á föstudeginum eða laugardeginum og myndaðist við það tækifæri oft góð stemming.
AKRANES: Í ár var í fyrsta skipti gengið á Skaganum. Um 70 manns gengu í góðu veðri og gátu valið milli tveggja vegalenda, 3 og 5 km. Gengið var frá Sundlauginni á Jaðarsbökkum og öllum boðið í sund á eftir.
STYKKISHÓLMUR: Stykkishólmur var einnig nýr staður og þar gengu næstum 50 manns fimm km leið í yndislegu veðri. Það var góð stemming í göngunni og flestir fóru í sund á eftir. Forskráning var á laugardeginum í Bónus og þar gafst fólki líka kostur á að undirbúa sig fyrir gönguna með því að fá sér boli með merki félagsins.
PATREKSFJÖRÐUR: Gengið var frá íþróttahúsinu upp í Mikladal og hægt að velja á milli 3, 5 og 7 km. Í lok göngunnar var göngufólki boðið í sund.
ÍSAFJÖRÐUR: Rúmlega 30 manns gengu í góðu veðri á Ísafirði en í boði voru tvær vegalendir, 3 og 7 km.
HÓLAR Í HJALTADAL: Þetta var í annað sinn sem gengið var á Hólum. Það voru um 20 manns sem létu norðanvind og rigningarsudda ekki aftra sér frá því að ganga saman í fallegu umhverfi í nágrenni Hóla.
AKUREYRI: Gengið hefur verið á Akureyri frá árinu 2008 og nú sem fyrr var gengið um Kjarnaskóg en þátttakendur gátu valið milli þriggja vegalengda (2,2, 4 og 6 km). Rúmlega 100 manns gengu og létu veðrið ekki hafa áhrif á sig en miðað við fyrri ár var veðrið frekar óspennandi en stemmingin var góð.
EGILSSTAÐIR: Í ár var aftur gengið á Egilstöðum og gengu rúmlega 50 manns í yndislegu veðri.
REYÐARFJÖRÐUR: Um 100 manns gengu í mildu og góðu veðri á Reyðarfirði en þetta er í annað skipti sem gengið er saman þar. Góð stemming og mikill samhugur var í göngunni .
HÖFN: Góð þátttaka í göngunni en í boði voru tvær vegalendir, 3 km eða 7 km. Margir nýttu sér boð um frítt í sund að lokinni göngu.
SELFOSS: Á Selfossi var gengið saman Laugardalshringurinn (5 km). Rúmlega 40 manns gengu í frábæru veðri og skemmti göngufólk afmælisbarninu Magnúsi Hlyni með afmælissöngnum í lok göngu
REYKJAVÍK: Þetta var fimmta styrktarganga Göngum saman í Reykjavík. Gengið var í blíðskaparveðri frá Valssvæðinu að Hlíðarenda og voru tvær vegalengdir í boði, hringur um Öskjuhlíð (3,8 km) og flugvallarhringurinn (7 km).