Það var mikil eftirvænting og skemmtileg stund í hátíðarsal Háteigsskóla í Reykjavík í fyrrakvöld þegar sýnd var heimildamynd sem 10 bekkingar höfðu gert um brjóstakrabbamein og styrktarfélagið Göngum saman. Myndin er eitt þeirra verkefna sem krakkarnir í félagsmiðstöðinni 105 hafa staðið fyrir í góðgerðarvikunni til styrktar Göngum saman.
Þessir krakkar geta allt – það var samróma álit þeirra sem voru við sýningu myndarinnar. Það eru Salvör Káradóttir, Inga Rán Reynisdóttir og Telma Ólafsdóttir sem eiga heiðurinn af gerð myndarinnar. Til hamingju stelpur, einstaklega vel að verki staðið og falleg nálgun. Helsti viðmælandi stelpnanna í myndinni var Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman en einnig töluðu þær við Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslækni og nokkra félaga í Göngum saman.
Klukkan 11 í kvöld hófst íþróttamaraþon sem krakkarnir standa fyrir og mun það vera í alla nótt. Krakkarnir hafa verið að safna áheitum vegna maraþonsins og renna þau óskipt í styrktarsjóð Göngum saman. Með krökkunum vaka þrír starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar 105 og tveir foreldrar. Við óskum krökkunum góðs gengis og skemmtunar.
Á frumsýningu myndarinnar um brjóstakrabbamein og Göngum saman. Höfundar myndarinnar eru lengst til hægri á myndinni en með þeim eru m.a. Friðbjörn Sigurðsson læknir og Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman.