Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Styrkveiting og uppskeruhátíð

Eftir Fréttir

Árleg styrkveiting Göngum saman verður mánudaginn 23. október í Hannesarholti og hefst kl. 17.

Veittar verða 15 milljónir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini á Íslandi.

Göngum saman þakkar öllum þeim sem hafa lagt söfnuninni lið og býður velunnurum að njóta uppskerunnar í Hannesarholti.

 

Kynning á umsóknum um rannsóknarstyrki

Eftir Fréttir

Umsækjendur um rannsóknarstyrki Göngum saman 2023 munu kynna verkefni sín miðvikudaginn 18. október kl. 17 .

Kynningarnar fara fram í stofu HT-300 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. HT-300 er á þriðju hæð, gengið upp stiga við Bóksölu stúdenta.

Félagar eru hvattir til að mæta.

Hvetjum okkar fólk

Eftir Fréttir

Hvatningastaður Göngum saman í Reykjavíkurmaraþoninu verður eins og undanfarin ár á horninu á Lynghaga og Ægissíðu.

Takið daginn snemma og komið að hvetja hlauparana okkar. Hafið með  ykkur eitthvað sem heyrist í, potta, sleifar, hrossabresti.

Fyrstu hlauparar leggja af stað frá Lækjargötunni kl. 8.40 og verða komnir á Ægissíðuna nokkrum mínútum síðar.

Svo má ekki gleyma að heita á þetta góða fólk á hlaupastyrkur.is

Styrkir til grunnrannsókna

Eftir Fréttir

Stjórn Göngum saman auglýsir eftir umsóknum um styrki til grunnrannsókna á
brjóstakrabbameini. Áætlað er að veita allt að 15 milljónum króna í styrki á árinu 2023.

Vísindamenn og nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi við íslenska háskóla og
rannsóknastofnanir geta sótt um styrk. Skilyrði er að verkefnið flokkist sem grunnrannsóknir á
brjóstakrabbameini. Ekki er veittur styrkur til tækjakaupa né til ferðalaga.

Umsóknareyðublað og almennar upplýsingar um útfyllingu umsóknar má nálgast hér á hér á heimasíðunni.

Umsókn skal senda á netfangið styrkir@gongumsaman.is fyrir lok dags þriðjudagsins 5. september
2023. Ekki er tekið við síðbúnum umsóknum.

Styrkir eru veittir skv. áherslum félagsins og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna.
Göngum saman getur óskað eftir frekari upplýsingum og/eða farið fram á að umsækjendur kynni
verkefni sín áður en endanleg ákvörðun um styrkveitingu er tekin. Stjórn Göngum saman áskilur sér
rétt til að ákveða skiptingu styrkja, sem og að hafna öllum umsóknum.

Úthlutun styrkja fer fram í október en sá mánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini

Reykjavíkurmaraþonið nálgast

Eftir Fréttir

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2023 fer fram 19. ágúst. Fjórar vegalengdir verða í boði og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Að venju gefst þátttakendum kostur á að styrkja gott málefni með áheitasöfnun.

Göngum saman er eitt þeirra félaga sem hlauparar geta valið að styrkja og hefur maraþonið verið mikilvæg fjáröflunarleið síðustu ár.

Við hvetjum alla velunnara Göngum saman til að skrá sig á hlaupastyrkur.is og safna áheitum á Göngum saman.

Sjá nánar um vegalengdir og skráningargjald hér.

Minnumst Gunnhildar á mæðradaginn

Eftir Fréttir
Á mæðradaginn  minnumst við Gunnhildar Óskarsdóttur með göngu frá Háskóla Íslands.
Gunnhildur stofnaði Göngum saman ásamt nokkrum vinum árið 2007 og var formaður félagsins allt þar til hún lést.
Við ætlum að heiðra minningu hennar og gleðjast yfir öllu því sem hún fékk áorkað.
Hittumst á Háskólatorgi kl. 11, sunnudaginn 14. maí.  Þar verða nokkrir styrkþega Göngum saman og kynna verkefni sín og
Vigdís Hafliðadóttir  mun flytja lag sitt Kæri heimur, lag barnamenningarhátíðar í ár.
Gangan verður við allra hæfi, stuttur hringur um Suðurtjörnina í Hljómskálagarði. Guðný Aradóttir leiðir gönguna.
Mætið í gleðina og takið vini með.
Nýir höfuðklútar með merki Göngum saman verða til sölu á  Háskólatorgi fyrir og eftir göngu.