Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Reykjavíkurmaraþonið 23. ágúst

Eftir Fréttir

 

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram þann 23. ágúst. Búist er við mikilli aðsókn í hlaupið í ár og því mikilvægt að skrá sig í tæka tíð.

Fjórar vegalengdir verða í boði og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Í skemmtiskokkinu verður boðið upp á ýmsar upplifanir á braut, t.d. froðudiskó, furðuverur verða á kreik, götulistamenn og tónlistaratriði.

Skráðu þig hér.

Hlaupastyrkur.is er heimasíða góðgerðarfélaganna, til að safna fyrir góðgerðarfélag þá ferðu inn á mínar síður eftir að þú hefur skráð þig. Þar velur þú Göngum saman, setur nafn og prófil mynd til að það birtist inni á hlaupastyrkur.is.

Þú finnur allar nánari upplýsingar um Reykjavíkurmaraþonið á rmi.is.

 

 

Göngum saman í Þórsmörk

Eftir Fréttir

Laugardaginn 31. maí 2025 verður haldinn styrktar- og gönguviðburðurinn GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK. Markmið viðburðarins er að koma saman, njóta frábærrar útivistar í einstakri náttúru og safna um leið fé til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails, í samvinnu við Göngum saman, hefur skipulagt frábæra dagskrá þar sem boðið verður upp á rútuferðir, göngu, grillveislu og kvöldvöku við varðeld.

Lagt verður upp frá Húsadal og gönguleiðsögn verður um tvær mismunandi leiðir. Tindfjallahringurinn er 12 km og fremur krefjandi með bröttum köflum og nokkurri hækkun en Merkurhringurinn er um 6 km fremur létt leið með aflíðandi brekkum og auðvelt að stytta leiðina frekar ef þörf krefur. Fyrir þá sem vilja jafnvel enn styttri útgáfu er lítið mál að rölta um á flatlendi og njóta útsýnisins við Húsadal eða ganga yfir í Langadal og mæta öðru göngufólki þar.

Þátttakendur greiða skráningargjald sem rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman og Volcano trails leggur fram mótframlag. Þetta er í fjórða sinn sem Volcano trails leggur Göngum saman lið á þennan hátt.

Rútuferðir verða í boði til og frá Reykjavík á göngudegi. Til og frá Hvolsvelli föstudag til sunnudags og einnig ferð yfir Krossá fyrir þá sem koma þangað á eigin jeppa.

Fjölbreyttir gistimöguleikar eru í Húsadal ef fólk vill lengja dvölina í Mörkinni.

Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Volcano trails.

Mæðradagsganga sunnudaginn 11. maí kl. 11

Eftir Fréttir
Á Mæðradaginn, sunnudaginn 11. maí, efnir Göngum saman til vorgöngu.
Gengið verður frá Háskólatorgi kl. 11 undir lúðrablæstri. Genginn verður stuttur hringur  um Suðurtjörnina í Hljómskálagarði. Ganga við allra hæfi.
Á Háskólatorgi munu vísindamenn sem þegið hafa styrki Göngum saman kynna verkefni sín og og tónlistarmaðurinn Einar Lövdahl skemmtir gestum.
Gangan er gjaldfrjáls en göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini með frjálsum framlögum eða með því að kaupa prjónauppskriftir og höfuðklúta með merki Göngum.
Við hvetjum til þátttöku í þessari fjölskylduvænu útiveru.

Brjóstasnúðarnir komnir í sölu

Eftir Fréttir

Mæðradagurinn nálgast og sjöunda árið í röð standa snillingarnir hjá Brauð&co fyrir fjáröflunarátaki fyrir styrktarsjóð Göngum saman.

Stuðningur þeirra hefur verið félaginu afar mikils virði.

Gómsætir hindberjasnúðar  verða seldir í bakaríum þeirra 2. – 11. maí og rennur allt söluandvirði snúðanna óskipt í styrktarsjóðinn.

Nú treystum við á að velunnarar  Göngum saman geri sér dagamun, kaupi gómsæta snúða og styrki um leið félagið.

Verði ykkur að góðu!

Aðalfundur Göngum saman 2025

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman 2025 verður haldinn þriðjudaginn 29. apríl kl. 17, á Óðinsgötu 7, 4. hæð.

Dagskrá:

  1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.
  2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
  3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
  4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
  5. Ákvörðun árgjalds.
  6. Önnur mál.

Uppskeruhátíð og styrkveiting

Eftir Fréttir

Árleg styrkveiting Göngum saman verður mánudaginn 28. október í Hannesarholti og hefst kl. 17.

Veittar verða 15 milljónir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini á Íslandi.

Göngum saman þakkar öllum þeim sem hafa lagt söfnuninni lið og býður velunnurum að njóta uppskerunnar í Hannesarholti.

Styrkir til grunnrannsókna

Eftir Fréttir

Stjórn Göngum saman auglýsir eftir umsóknum um styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Áætlað er að veita allt að 15 milljónum króna í styrki á árinu 2024.

Göngum saman er grasrótarfélag með það markmið að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.  Þetta verður í 18. skipti sem úthlutað verður styrkjum úr vísindasjóði Göngum saman en félagið hefur veitt 150 milljónum króna í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna frá stofnun þess árið 2007.

Vísindamenn og nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir geta sótt um styrk. Styrkir eru veittir til eins árs. Skilyrði er að verkefnið flokkist sem grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Ekki er veittur styrkur til tækjakaupa né til ferðalaga.

Umsækjendur skulu fylla út umsóknareyðublað sem er að finna á heimasíðu Göngum saman.

Þar er einnig að finna almennar upplýsingar og leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar.

Umsókn skal senda á netfangið styrkir@gongumsaman.is fyrir lok dags þriðjudagsins 10. september 2024. Ekki er tekið við síðbúnum umsóknum.

Styrkir eru veittir skv. áherslum félagsins og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna. Göngum saman getur óskað eftir frekari upplýsingum og/eða farið fram á að umsækjendur kynni verkefni sín áður en endanleg ákvörðun um styrkveitingu er tekin. Stjórn Göngum saman áskilur sér rétt til að ákveða skiptingu styrkja, sem og að hafna öllum umsóknum.

Úthlutun styrkja fer fram í október en sá mánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini.

Hvetjum okkar fólk

Eftir Fréttir

Í Reykjavíkurmaraþoninu , laugardaginn 24. ágúst, safna tuttugu og sex hlauparar áheitum fyrir Göngum saman. Þetta góða fólk á skilið að fá pepp og hlaupastyrk frá okkur hinum sem ekki hlaupum.

Hvatningastaður Göngum saman verður eins og undanfarin ár á horninu á Lynghaga og Ægissíðu. Takið daginn snemma og komið að hvetja hlauparana okkar. Hafið með  ykkur eitthvað sem heyrist í, potta, sleifar, hrossabresti.

Fyrstu hlauparar leggja af stað frá Lækjargötunni kl. 8.40 og verða komnir á Ægissíðuna nokkrum mínútum síðar.

Áheitunum er komið til skila á hlaupastyrkur.is