Skip to main content
Monthly Archives

október 2011

Göngum saman styrkir rannsóknir ungs fólks með rúmum 5 millj

Eftir Fréttir

Í dag fór fram styrkveiting Göngum saman í húsakynnum Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Sem endranær var mikil gleði við athöfnina. Í upphafi spilaði Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir frá Ísafirði og nemanda hennar Hjörtur sitthvort lagið á harmónikku. Þá fór formaður félagsins, Gunnhildur Óskarsdóttir, yfir árið hjá Göngum saman áður en hún afhenti með hjálp Salvarar Káradóttur styrkþegum blóm og ávísanir. Styrkþegarnir í ár eru fjórir og hlutu þau samtals rúmlega 5 milljónir.

Þrír nemar við Háskóla Íslands hlutu styrki auk eins líffræðings:

• Guðrún Birna Jónsdóttir, meistaranemi fékk styrk fyrir verkefnið "Örflögugreining á æxlismerkjum sem tengjast sjúkdómshorfum í brjóstakrabbameini".
• Jenný Björk Þorsteinsdóttir líffræðingur fékk styrk fyrir verkefnið "Starfræn skilgreining á frumulínum sem bera BRCA2 stökkbreytingar".
• Margrét Aradóttir, meistaranemi fékk styrk í verkefnið "Lengd litningaenda í brjóstakrabbameinum á Íslandi".
• Sævar Ingþórsson, doktorsnemi fékk styrk í doktorsverkefni sitt "Hlutverk EGFR í framþróun brjóstakrabbameins".

Í lokin sungu Fóstbræður nokkur lög en þeir hafa stutt Göngum saman frá upphafi með því að gleðja gesti við styrkafhendingu félagsins.

Aðeins EINN dagur í BRJÓSTABALLIÐ

Eftir Fréttir

Nú styttist í árlegt Brjóstaball Göngum saman sem verður í Iðnó annað kvöld, húsið opnar kl. 21:30. Blúsbandið heldur fólki á dansgólfinu og Sólmundur Hólm skemmtir gestum þannig munnvikin kippast upp. Þá verður óvænt uppákoma.

Miðar við innganginn – aðgangseyrir er kr. 2500 og rennur hann óskiptur í rannsóknasjóð félagsins.
Fjölmennum og dönsum til styrktar góðu málefni!

Formaðurinn og Avon gangan í NY 2011

Eftir Fréttir

Formaður Göngum saman, Gunnhildur Óskarsdóttir, mætti óvænt Avon göngunni á götum Manhattan í New York um síðustu helgi er hún var þar í fríi. Þetta kallaði fram góðar minningar frá sömu göngu fyrir fjórum árum er Gunnhildur ásamt 26 öðrum íslenskum konum tók þátt. Styrktarfélagið Göngum saman á einmitt upphaf sitt að rekja til ferðar 22 þessara kvenna haustið 2007.Gunnhildur sem taldi að Avon gangan hefði verið fyrr í október var ánægð að fá að upplifa Avon gönguna nú sem áhorfandi og hvatti hún fólk til dáða. Gunnhildur notaði tækifærið og ræddi við nokkra þátttakendur og á myndinni hér að neðan er Gunnhildi með tveimur konum sem voru í Avon 2011.

Breyting á göngustað á Akureyri

Eftir Fréttir

Vikulegar göngur Göngum saman á Akureyri eru á mánudögum og nú verður tekið vetrarfrí frá Kjarnaskógi. Við flytjum okkur niður í bæinn – hist verður við aðalinngang Íþróttahallarinnar við Þórunnarstræti kl. 17:30 á mánudaginn.

Allir velkomnir.

Brjóstaballið eftir 9 daga!

Eftir Fréttir

Það verður sixties ball í Iðnó föstudaginn 28. október n.k. til styrktar Göngum saman. Húsið opnar kl. 21:30 og kostar 2.500 krónur inn. Blúsbandið spilar og Sóli Hólm skemmtir gestur.

brjostaball2011_sixties2.pdfbrjostaball2011_sixties2.pdf

Bleikur október

Eftir Fréttir

Október er alþjóðlegur mánuður brjóstakrabbameins og er víða um heim notaður til að vekja athygli á sjúkdómnum og safna fé til rannsóknar á brjóstakrabbameini. Göngum saman mun afhenda íslenskum rannsakendum rannsóknastyrki alls að upphæð 6 milljóna þann 28. október n.k. og síðan verður dansað í Iðnó um kvöldið til styrktar málefninu.

Á laugardaginn hófst formlega árverkefni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, BLEIKA SLAUFAN, og stefnir félagið að því að selja 50 þúsund slaufur. Slaufan í ár er gerð úr perlum sem afrískar konur perluðu og er því ávinningurinn tvöfaldur. Bleika slaufan er tákn Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Styðjum þetta frábæra framtak – sjá nánar á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.