Skip to main content

Göngum saman styrkir rannsóknir ungs fólks með rúmum 5 millj

Eftir október 28, 2011Fréttir

Í dag fór fram styrkveiting Göngum saman í húsakynnum Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Sem endranær var mikil gleði við athöfnina. Í upphafi spilaði Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir frá Ísafirði og nemanda hennar Hjörtur sitthvort lagið á harmónikku. Þá fór formaður félagsins, Gunnhildur Óskarsdóttir, yfir árið hjá Göngum saman áður en hún afhenti með hjálp Salvarar Káradóttur styrkþegum blóm og ávísanir. Styrkþegarnir í ár eru fjórir og hlutu þau samtals rúmlega 5 milljónir.

Þrír nemar við Háskóla Íslands hlutu styrki auk eins líffræðings:

• Guðrún Birna Jónsdóttir, meistaranemi fékk styrk fyrir verkefnið "Örflögugreining á æxlismerkjum sem tengjast sjúkdómshorfum í brjóstakrabbameini".
• Jenný Björk Þorsteinsdóttir líffræðingur fékk styrk fyrir verkefnið "Starfræn skilgreining á frumulínum sem bera BRCA2 stökkbreytingar".
• Margrét Aradóttir, meistaranemi fékk styrk í verkefnið "Lengd litningaenda í brjóstakrabbameinum á Íslandi".
• Sævar Ingþórsson, doktorsnemi fékk styrk í doktorsverkefni sitt "Hlutverk EGFR í framþróun brjóstakrabbameins".

Í lokin sungu Fóstbræður nokkur lög en þeir hafa stutt Göngum saman frá upphafi með því að gleðja gesti við styrkafhendingu félagsins.