Skip to main content
Monthly Archives

júní 2012

Umsóknafrestur í styrktarsjóð Göngum saman er til 1. sept.

Eftir Fréttir

Rannsóknastyrkjum verður úthlutað úr styrktarsjóði Göngum saman í sjötta sinn í október n.k. og er áætlað að úthluta allt að 10 milljónum króna.
Auglýst er eftir umsóknum og rennur fresturinn út 1. september 2012. Umsóknum skal skilað á sérstöku umsóknareyðublaði sem er að finna hér á heimasíðu félagsins styrkumsokn_gongumsaman_2012.doc og skal senda umsókn sem viðhengi á netfangið styrkir hjá gongumsaman.is merkt – Styrkumsókn 2012 -.

Hér er að finna auglýsinguna um styrki félagsins.

Þingvallagangan frábærlega vel heppnuð

Eftir Fréttir

Guðný Aradóttir og göngugarpanir sem gengu með henni s.l. nótt frá Vinaskógi á Þingvöllum til Laugardalslaugarinnar Í Reykjavík gengu leiðina sem var um 63 km (eitt og hálft maraþon) á 12 og 1/2 klukkustund með hléum!

Þetta var stórkostleg upplifun fyrir þá sem tóku þátt, sumarnóttin falleg og félagsskapurinn skemmtilegur. Að göngu lokinni var þátttakendum boðið í sund/heitan pott! í Laugardalslauginni.

Göngum saman þakkar Guðnýju fyrir þetta einstaka framtak og göngufólkinu og öllum sem hétu á það innilega fyrir.  Áheitareikningurinn er 372-13-304102, kt. 650907-1750 og það er ennþá tekið við áheitum og framlögum. Vinsamlega sendið tilkynningu um greiðslu til guðny@stafganga.is

Allt sem safnast í tengslum við gönguna fer í styrktarsjóð Göngum saman.

Þátttakendur að morgni á lokasprettinum, allir kátir og glaðir eftir vellukkaða næturgöngu frá Þingvöllum.

Þingvallaganga Guðnýjar fór vel af stað

Eftir Fréttir

Styrktarganga Guðnýjar Aradóttur hófst við Vinaskóg á Þingvöllum kl. 8 í kvöld – mætt voru næstum 70 manns sem ætla að ganga til Reykjavíkur. Guðný áætlar að gangan sem er um 63 km löng taki um 12 klst. og mun göngufólk enda við World Class Laugum í fyrramálið.

Við hugsum til göngufólksins og allir geta tekið þátt með því að heita á göngufólkið. Áheitareikningurinn er 372-13-304102, kt. 650907-1750. Vinsamlega senda tilkynningu um greiðslu til guðny@stafganga.is  Allt sem safnast í tengslum við gönguna fer í styrktarsjóð Göngum saman.

Armböndin hennar Hlínar Reykdal – Ein milljón í styrktarsjóð

Eftir Fréttir

Við upphaf göngu um Öskjuhlíðina í kvöld afhenti Hlín Reykdal hönnuður Göngum saman eina milljón króna í styrktarsjóð félagsins. Fjárhæðin er afrakstur sölu af armböndunum fallegu sem Hlín hannaði fyrir Göngum saman og voru seld í apríl s.l.

Göngum saman færir Hlín innilegar þakkir fyrir þetta frábæra framlag og fyrir mjög ánægjulega samvinnu.

Á myndinni eru Ragnhildur Vigfúsdóttir, Hlín Reykdal og Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman

Næturganga frá Þingvöllum til Reykjavíkur

Eftir Fréttir

Í tilefni fimm ára afmælis Göngum saman hefur Guðný Aradóttir stafgönguþjálfari og einn stofnfélaga Göngum saman ákveðið að ganga frá Þingvöllum til Reykjavíkur að næturlagi þann 15 júní n.k.. Þetta verður ca. 63 km styrktarganga og og lagt af stað frá Vinaskógi á Þingvöllum kl. 20:00, gengin svokölluð Nesjavallaleið og endað við World Class Laugum. Áætlaður tími er 10 klukkustundir plús. Rúta fer frá World Class, Laugum kl. 19:00. Þeir sem vilja fá far með rútunni vinsamlegast látið Guðnýju vita fyrir miðvikudaginn á feisbook eða í tölvupósti. 

Það er hverjum og einum frjálst að ganga þá vegalengd sem hann treystir sé til. Bíll mun fylgja göngunni allan tímann sem hægt verður að setjast upp í og hvíla sig í einhvern tíma og sameinast svo göngunni aftur. Eins verða vatnsbyrgðir með í för til að fylla á brúsa.

Það verður hægt að heita á Guðnýju og alla þá sem taka þátt í göngunni með henni, þátttökugjald í gönguna verður 100 kr á hvern genginn kílómeter.

Upplýsingar um áheitareikninginn 372-13-304102 ktl. 650907-1750. Vinsamlegast sendið tilkynningu um greiðslu á: gudny@stafganga.is

Búið er að útbúa viðburð um gönguna á Facebook og er fólk hvatt til að fylgjast með þar. Guðný mun pósta nánari upplýsingum um gönguna þar þegar nær dregur. Guðný skorar á alla að ganga með sér þessa skemmtilegu leið. Þá er hægt að skrá sig í viðburðinn á FB eða senda Guðnýju póst á gudny@stafganga.is til að fá nánari upplýsingar og skrá sig í gönguna.