Skip to main content
Monthly Archives

október 2010

Styrkveiting Göngum saman

Eftir Fréttir

Í dag miðvikudaginn 27. október veitti félagið íslenskum rannsóknaraðilum á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini rannsóknarstyrki að fjárhæð kr. 5 milljónir.

Þetta er í fjórða sinn sem félagið veitir styrki og með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls 17 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini á þremur árum.

Styrkurinn í ár er veittur í minningu um Kristbjörgu Marteinsdóttur en hún lést af völdum brjóstakrabbameins 11. nóvember í fyrra tæplega 45 ára gömul.

Styrkurinn skiptist á milli fjögurra aðila:
• Bylgja Hilmarsdóttir, doktorsnemi fyrir verkefnið: Hlutverk PTP1B í stofnfrumum brjóstkirtils.

• Guðrún Birna Jónsdóttir, meistaranemi fyrir verkefnið: Örflögugreining á æxlismerkjum sem tengjast sjúkdómshorfum í brjóstakrabbameini.

• Dr. Helgi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala-háskólasjúkrahúsi fyrir verkefnið: Lyfjanæmispróf á brjóstakrabbameinsfrumum.

• Dr. Rósa Björk Barkardóttir klínískur prófessor á Landspítala-háskólasjúkrahúsi fyrir verkefnið Stökkbreytileit á völdum litningasvæðum í fjölskyldum með háa tíðni krabbameins í brjóstum.

Brjóstaball í Iðnó 13. nóv. – dönsum og styrkjum í leiðinni

Eftir Fréttir

Undirbúningur fyrir Brjóstaballið í Iðnó 13. nóvember n.k.  er í fullum gangi. Miðasalan á ballið hófst á www.midi.is í gær. Einnig er hægt að kaupa miða í Iðnó.

Fjölmennum, dönsum saman, skemmtum okkur saman og styðjum grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini í leiðinni.

Tónlistafólkið og allir sem að Brjóstaballinu koma gefa vinnu sína þannig að allur ágóði ballsins fer í styrktarsjóðinn. Göngum saman þakkar þeim öllum fyrir svo og aðstandendum Iðnó fyrir framlag sitt með láni á húsinu.