Skip to main content
Monthly Archives

febrúar 2012

Vísindi á laugardegi – vel sóttur fundur um helgina

Eftir Fréttir

Annar fundurinn í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" var haldinn í Læknagarði á laugardaginn er rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors tók á móti gestum. Góð mæting var á fundinn og almenn ánægja með fyrirlestur Þórarins og kynningu nemenda á því sem fram fer á rannsóknastofunni. Í erindi Þórarins gerði hann grein fyrir stofnfrumum í gangvirkni líkamans og hlutverk þeirra í að skilja uppruna og eðli krabbameins.

Fréttakona Sjónvarpsins nýtti sér boðið um heimsókn í Læknagarð og kynnti sér stofnfrumurannsóknir. Viðtöl við Þórarinn og Gunnhildi Óskarsdóttur formanns Göngum saman var í fréttatíma Sjónvarpsins á laugardagskvöldinu. Sjá hér, umfjöllunin byrjar á 15:35.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í hringsal Landspítalans (á milli Barnaspítala Hringsins og Kvennadeildar) laugardaginn 16. mars og þá mun samstarfshópur á Landspítala um rannsóknir á brjóstakrabbameini taka á móti gestum.

Vísindi á laugardegi – næsti fræðslufundur á laugardaginn

Eftir Fréttir

Nú er komið að öðrum fræðslufundinum í fræðslufundaröð Göngum saman um gildi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini, „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“.

Laugardaginn 25. febrúar kl. 13 mun rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors taka á móti félögum Göngum saman og öðrum áhugasömum í Læknagarði og segja frá rannsóknum á stofnfrumum og hvernig þær hjálpa til við að skilja betur eðli og uppruna brjóstakrabbameins.

Þórarinn mun byrja fræðslufundinn með erindi í fyrirlestrarsalnum á 3. hæð í Læknagarði, byggingu Læknadeildar Háskóla Íslands, Vatnsmýrarvegi 16 og síðan verður fólki boðið að skoða rannsóknastofu hópsins á hæðinni fyrir ofan. Boðið verður upp á kaffi.

Sjá upplýsingar um einstaka fundi í fræðslufundaröðinni „Vísindi á laugardegi“ á viðburðardagatalinu á heimasíðunni.

Góður fundur í Læknagarði í gær

Eftir Fréttir

Góð mæting var á fyrsta fundinum í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" sem haldinn var í Læknagarði í gær. Jórunn Erla Eyfjörð prófessor hélt mjög áhugavert erindi þar sem hún fór yfir rúmlega 20 ára sögu rannsóknahópsins hennar og fjallaði um mikilvægi grunnrannsókna til að skilja eðli og uppruna krabbameins.

Eftir erindið var öllum boðið upp á rannsóknastofu hópsins og Jórunn ásamt samstarfsfólki ræddu við gestina.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í Læknagarði laugardaginn 25. febrúar og þá mun rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar og Magnúsar Karls Magnússonar taka á móti gestum.

Vísindi á laugardegi – heimsókn í Læknagarð á morgun

Eftir Fréttir

Á morgun laugardag veður haldinn fyrsti fræðslufundurinn í röðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" sem Göngum saman stendur fyrir.

Rannsóknahópur Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessors mun taka á móti fólki í Læknagarði, húsi Læknadeildar HÍ kl. 13. Vakin er athygli á viðtölum við Jórunni í Morgunblaðinu í gær fimmtudag og í þættinum "Samfélag í nærmynd" á rás 1.

Þessi fræðslufundaröð er einstakt tækifæri fyrir almenning að fræðast um mikilvægi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og hvernig þær eru undirstaða allra framfara í skilningi á meininu og þá bættum meðferðarúrræðum.

Allir velkomnir!

Læknagarður er staðsettur milli Hringbrautar og Gömlu Hringbrautar, neðan við Landspítalann, sjá kort að neðan.