Skip to main content
Monthly Archives

maí 2012

Ein og hálf milljón safnaðist með sölu á brjóstabollunni

Eftir Fréttir

Jóhannes Felixson formaður Landssambands bakarameistara (LABAK)  afhenti Gunnhildi Óskarsdóttur, formanni Göngum saman, 1.500.000 kr. í styrktarsjóð félagsins í gær en LABAK, stóð fyrir sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 10 – 13. maí til stuðnings félaginu. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar brugðust vel við og buðu upp á brjóstabollur með kaffinu mæðradagshelgina. Göngum saman þakkar LABAK innilega fyrir samstarfið og stuðninginn og öllum þeim sem keyptu brjóstabolluna.

Fyrirstæki styrktu auglýsingar Göngum saman

Eftir Fréttir

Hún var falleg opnuauglýsingin í Fréttablaðið um síðustu helgi sem vakti athygli á Mæðradagsgöngu Göngum saman um allt land og brjóstabollunni sem bakarar buðu upp á um mæðradagshelgina til styrktar félaginu. Þökk sé fjölmörgum fyrirtækjum sem styrktu félagið til að auglýsa viðburði helgarinnar, með opnunni og í skjáauglýsingum sjónvarpsins. Án þessara sérstöku auglýsingastyrkja hefði ekki verið mögulegt að vekja sömu athygli á göngunni því það er ófrávíkjanleg regla Göngum saman að það sem safnast í viðburðum og öðrum verkefnum félagsins fer allt í styrktarsjóðinn og nýtist þannig til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðaliðavinnu og við eigum marga góða stuðningsmenn sem leggja Göngum saman lið. Í ár fengum við fríðan hóp karla og kvenna til að sitja fyrir hjá Báru ljósmyndara í fallegu bolunum hans Munda sem hann hannaði fyrir félagið í tilefni af 5 ára afmæli þess. Auglýsingar félagsins gerði Ólafur Haraldsson grafískur hönnuður. Göngum saman þakkar öllu þessu góða fólki og öðrum sem hafa gengið saman með félaginu í verkefnum þess.

Suðurnesjamenn byrja með krafti

Eftir Fréttir

Í gær á mæðradaginn var í fyrsta sinn gengið í Reykjanesbæ undir merki Göngum saman. Og Suðurnesjafólk fjölmennti svo sannarlega í gönguna, hátt í 300 manns gengu og studdu þannig félagið. Það er ákaflega mikilvægt fyrir félag eins og Göngum saman að finna fyrir svo miklum stuðningi. Fólk klæddi sig vel og naut hreyfingarinnar þrátt fyrir kalsann en gengið var í sól og roki. Þetta var yndislegur dagur og mikil stemming á staðnum.

Göngum saman þakkar undirbúningsnefndinni í Reykjanesbæ og öllum þeim sem tóku þátt í göngunni fyrir að taka eins myndarlega á móti Göngum saman í bænum og raunin var. Það er gott að margir vilja ganga saman og varða leiðina til betri skilnings á eðli og uppruna brjóstakrabbameins og þannig stuðla að betri meðferð fyrir þær konur sem greinast með sjúkdóminn. Þetta er langhlaup en vonandi mun vísindafólk framtíðarinnar finna lækningu. Við tökum þátt því rannsóknirnar gefa okkur von til framtíðar.

Ísfirðingar létu veðrið ekki stoppa sig

Eftir Fréttir

Fréttir berast um ýmis veður í Mæðradagsgöngu Göngum saman sem fór fram víða um land á sunnudagsmorgun. Á Vesturlandi og á Vestfjörðum gallaði fólk sig upp og lét veðrið ekki stoppa sig þó mörgum hafi eflaust þótt freistandi að kúra inni í hlýjunni. Í Stykkishólmi fréttist af hálfgerðum snjókörlum og Ísfirðingar börðust móti vindinum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Það er mikilvægt fyrir Göngum saman að finna kraftinn alls staðar og hversu mikið fólk leggur á sig til að ganga saman fyrir það verðuga málefni sem félagið stendur fyrir.

Siglfirðingar komu sterkir inn á síðustu stundu

Eftir Fréttir

Það var ánægjulegt í fyrradag er fréttist að nokkrar konur ákváðu að bæta Siglufirði inn á kortið hjá Göngum saman og auglýstu Mæðradagsgöngu þar. Sautján manns mættu og létu veðrið ekki stoppa sig í að ganga saman.Þetta var hressileg ganga og síðan endað í súpu á Torginu.

Fyrir Göngum saman er það frumkvæði sem við finnum hjá fólki um allt land ómetanlegt. Takk fyrir.

Myndirnar bera með sér að það var næðingur á Siglufirði í morgun.

Mæðradagsganga Göngum saman um allt land

Eftir Fréttir

Frábær stemming og skemmtilegar göngum um allt land. Yfir þúsund manns gengu á 13 stöðum í morgun og einn staður tók forskot á sæluna í gær þannig að það var gengið saman á 14 stöðum í ár.

Gengið var í fyrsta skipti í Reykjanesbæ og bæjarbúar tóku vel á móti Göngum saman og næstum 300 manns gengu í fínu veðri, sól og vindi en að vísu fekk göngufólk ókeypis salt-skrúbb er þau gengu meðfram sjávarsíðunni! Og á Egilsstöðum gengu um 40 manns í rigningu og strekkings vindi og snjókorn farin að falla í í lok göngu. Þrátt fyrir veðrið var góð stemming og fólk hafði gaman að. Það er ánægjulegt hve vel tókst til alls staðar þrátt fyrir að veðrið var víða erfitt og vitað er að fólk sem ætlaði í gönguna á Akureyri frá Dalvík komst ekkert. Þrátt fyrir leiðindarveður fyrir norðan tókst að fá um 100 manns út í veðrið að ganga á Akureyri.

Það voru einnig margir eða um 600 manns sem lögðu leið sína í Laugardalinn í dag þrátt fyrir kul í lofti. Mikil gleði og almenn ánægja. Það var mikið að gera á söluborðinu og bolirnir og buffin hans Munda slógu í gegn.

Göngum saman þakkar öllum sem tóku þátt í Mæðradagsgöngunni um allt land og öllu því frábæra fólki sem gerði þær að veruleika en það liggur mikil sjálfboðavinna að baki þessum vellukkuðu göngum. TAKK!

Frá Laugardalnum vinstra megin og Egilsstöðum hægra megin.

Fleiri myndir verða settar inn í myndaalbúm á heimasíðunni.

Siglufjörður bætist við

Eftir Fréttir

Það er ánægjulegt hversu mikill áhugi er á Mæðradagsgöngu Göngum saman um allt land. Nýr staður hefur bæst við.

Göngum saman hefur fengið góðan stuðning frá Siglufirði. Þar hefur Ásdís Kjartansdóttir fengið nokkrar góðar konur í lið með sér og þær ætla að ganga saman á Mæðradaginn. Lagt verður af stað frá Torginu kl. 11 og mun veður ráða för. Eftir gönguna ætla þær svo að fá sér súpu hjá Ásgeiri á Torginu.

Sjá nánar á www.sksiglo.is

Vel heppnuð ganga frá Stórutjarnaskóla

Eftir Fréttir

Í ár var í fyrsta skipti boðið upp á Göngum saman göngu frá Stórutjarnaskóla. Vegna slæmrar veðurspár norðan heiða var ákveðið að flýta göngunni þar um einn sólarhring og því var hún í dag.Gangan gekk mjög vel, veðrið var kyrrt, sólarlítið og hiti um 12°c. Lagt var af stað kl.11 og gengið kringum hólana og tjarnirnar við skólann.

Eftir göngu var boðið upp á súpu í skólanum. Það var góð þátttaka og fólk ánægt með þennan skemmtilega viðburð.

Mæðradagsgangan á sunnudag

Eftir Fréttir

Engan bilbug er að finna á þeim vösku konum sem skipuleggja mæðradagsgöngur víða um land á sunnudaginn kl. 11. Við ætlum að bjóða náttúruöflunum birginn og fer líklega vel á því þegar málefnið sem við göngum fyrir er haft í huga.

Þó er ein skynsamleg undantekning. Vegna aðstæðna á Stórutjörnum verður gengið þar á laugardaginn kl. 11.

Allar aðrar göngur verða samkvæmt áætlun. Skipuleggjendur hafa gert ráðstafanir til að bregðast við veðrinu og við hvetjum alla sem taka þátt til að klæða af sér veðrið.

Við göllum okkur upp á sunnudaginn, gefum veðrinu langt nef og njótum hressandi útivistar fyrir mikilvægt málefni.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.