Skip to main content
Monthly Archives

mars 2010

Breyttur göngustaður og nýtt fyrirkomulag í göngum í Rvík

Eftir Fréttir

Nú eru vikulegu göngurnar í Reykjavík komnar í páskafrí og þegar við hittumst á ný, mánudaginn 12. apríl, er mæting á Sprengisandi v/Reykjanesbraut en þaðan komumst við í undirgöngum yfir í Elliðaárdalinn.

Þá verður einnig sú nýbreytni í göngunum að við verðum með tvo hópa sem munu ganga mishratt þannig að fleiri ættu að finna sér hraða við sitt hæfi. Hóparnir leggja af stað á sama tíma og eins og venjulega leiddir af góðu fólki sem stýrir hraðanum og ákveður hvar gengið er. Í lok göngunnar hittast allir og teygja saman.

Mikill kraftur í starfi Göngum saman

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman í gærkvöldi var vel sóttur. Fundarstjóri var Sæmundur Runólfsson og fundarritari Heiðrún Kristjánsdóttir. Formaður félagsins Gunnhildur Óskarsdóttir var endurkjörin með lófaklappi. Sú endurnýjun varð í stjórn félagsins að Helga Haraldsdóttir kom inn i stað Rannveigar Rúnarsdóttur og Ragnhildur Zoëga var kosin í varastjórn. Á aðalfundinum kom vel fram hversu mikið óeigingjarnt starf félagsmenn hafa unnið fyrir félagið á árinu og þakkaði formaðurinn fyrir það.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf var fræðslumyndin Göngum saman og brjóstakrabbamein sýnd við góðar undirtektir. Myndina gerðu 10. bekkingar í Háteigsskóla í fyrra og var gerð henna hluti af verkefni í góðgerðaviku sem unnið var í samstarfi við Félagsmiðstöðina 105 en þau ákváðu að safna fé til styrktar Göngum saman. Í myndinni fjalla krakkarnir um brjóstakrabbamein og stofnun styrktarfélagsins Göngum saman. Þau byggja myndina upp á viðtölum, m.a. við Gunnhildi Óskarsdóttur formann félagsins og Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslækni.

Aðalfundur Göngum saman mánudaginn 15. mars

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman verður haldinn mánudaginn 15. mars 2010 kl. 20:00
í sal Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins Skógarhlíð 8, Reykjavík.
 
Dagskrá
1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar félagsins kynntir og bornir upp til samþykktar.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
4. Kosning skoðunarmanna reikninga.
5. Ákvörðun árgjalds.
6. Önnur mál.
 
Allir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Eftir aðalfundinn verður sýnd heimildamynd um Göngum saman og brjóstakrabbamein sem 10. bekkingar í Háteigsskóla veturinn 2008-2009 gerðu.

Fjölmennum,
stjórn Göngum saman