Skip to main content

Mikill kraftur í starfi Göngum saman

Eftir mars 16, 2010Fréttir

Aðalfundur Göngum saman í gærkvöldi var vel sóttur. Fundarstjóri var Sæmundur Runólfsson og fundarritari Heiðrún Kristjánsdóttir. Formaður félagsins Gunnhildur Óskarsdóttir var endurkjörin með lófaklappi. Sú endurnýjun varð í stjórn félagsins að Helga Haraldsdóttir kom inn i stað Rannveigar Rúnarsdóttur og Ragnhildur Zoëga var kosin í varastjórn. Á aðalfundinum kom vel fram hversu mikið óeigingjarnt starf félagsmenn hafa unnið fyrir félagið á árinu og þakkaði formaðurinn fyrir það.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf var fræðslumyndin Göngum saman og brjóstakrabbamein sýnd við góðar undirtektir. Myndina gerðu 10. bekkingar í Háteigsskóla í fyrra og var gerð henna hluti af verkefni í góðgerðaviku sem unnið var í samstarfi við Félagsmiðstöðina 105 en þau ákváðu að safna fé til styrktar Göngum saman. Í myndinni fjalla krakkarnir um brjóstakrabbamein og stofnun styrktarfélagsins Göngum saman. Þau byggja myndina upp á viðtölum, m.a. við Gunnhildi Óskarsdóttur formann félagsins og Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslækni.