Skip to main content
Monthly Archives

september 2011

Golden Wings styrkir Göngum saman

Eftir Fréttir

Í ágúst s.l. fjölmennti hópur í Kerlingarfjöll til að ganga til góðs. Þarna voru á ferðinni starfsfólk Icelandair Group og fjölskyldur þeirra en þetta var í fjórða sinn sem Golden Wings skipuleggur slíka göngu á Íslandi. Í ár var ákveðið að styrkja Göngum saman.

Í ár styrkti ITS gönguna með kaupum á bleikum buffum Göngum saman og settu buffin skemmtilegan svip á gönguna sem farin var í björtu og fallegu veðri. Golden Wings styrkti Göngum saman um samtals 345 þúsund og þökkum við þeim kærlega fyrir þetta góða framlag.

Saga Golden Wings er jafngömul Göngum saman því upphaf beggja félaganna má rekja til Avon göngunnar í New York haustið 2007 er upphafskonur þessara félaga gengu eitt og hálft maraþon um Manhattan til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Rannsóknir skipta máli!

Eftir Fréttir

Vísindamenn á Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur Háskóla Íslands og Landspítalann hafa birt grein í lífvísindaritinu PLoS ONE, þar sem þeir sýna fram á hvernig æðaþelsfrumur geta umbreytt stofnfrumum í brjóstkirtli í bandvefslíkar frumur.

Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Valgarðs Sigurðssonar og snerist um að þróa þrívítt frumuræktunarlíkan þar sem æðaþelsfrumur voru ræktaðar með stofnfrumum úr brjóstkirtli. Valgarður er einn af styrkþegum Göngum saman.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/09/08/skilja_betur_edli_meinvarpa/

Frábær árangur í Reykjavíkurmaraþoni!

Eftir Fréttir

Göngum saman fékk tæpar 1.250 þúsund kr. í áheit og var í 8. sæti af 138 góðgerðafélögum en þetta kom fram í áheitaskýrslunni sem afhent var í Ráðhúsinu í gær. Frábær árangur og við þökkum enn og aftur öllum þátttakendum og þeim sem hétu á þá.

Hátt í þúsund manns gengu saman um allt land í dag.

Eftir Fréttir

Mikil gleði og stemning ríkti í morgun þegar fólk mætti á 11 stöðum á landinu til að ganga til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Samtals gengu hátt í 1000 manns og lögðu þannig málefninu lið. Margir sjálfboðaliðar komu að undirbúningi og framkvæmd göngunnar og er þeim þakkað fyrir ómetanlegt starf. Einnig þeim fyrirtækjum sem studdu gönguna í ár og síðast en ekki síst er öllum sem gengu saman í dag þakkað fyrir stuðninginn.

Óvæntur stuðningur birtist í Valsheimilinu í morgun þegar U21 landsliðið í fórbolta klæddist Göngum saman bolum á æfingu sem fram fór á Valsvellinum á svipuðum tíma og gangan var.

Mikil stemning var við Hlíðarenda í morgun þegar gangan lagði af stað við undirleik brassbands.

Þrjátíu og einn hljóp Skeiðshlaup!

Eftir Fréttir

Þrjátíu og einn hljóp Skeiðshlaup í morgun. Lagt var af stað frá bænum Skeiði í Svarfaðardal og  og hlaupið upp í fjöll að Skeiðsvatni, fyrir fjöllin og til baka í gegnum berjaland og yfir tún heim til Skeiðum. Leiðin er um 13 km löng (12,86 km) og að hluta til dráttarvélaslóð, síðan kindaslóð og síðan malarvegur. 1000 kr. af þátttökugjaldinu rennur til Göngum saman.

Göngum saman þakkar þátttakendum innilegar fyrir og ekki síður Myriam og Ingimar á Skeiði fyrir að skipulagningu og frumkvæði.

Unirbúningur styrktargöngunnar á fullu

Eftir Fréttir

Um allt land er nú verið að undirbúa styrktargönguna sem verður á sunnudaginn kl. 11 á 11 stöðum hringinn í kringum landið.

Í vikunni var viðtal á N4 við forsvarskonur Göngum saman á Akureyri og við munum heyra meira af Göngum saman starfinu í fjölmiðlum næstu daga. Fjölmennum í gönguna á sunnudaginn um allt land.

Búið er að opna fyrir skráningu hér á heimasíðunni en einnig er hægt að borga á staðnum, fólk hvatt til að mæta snemma og vera með reiðufé.