Skip to main content
Monthly Archives

mars 2012

Göngum saman félagar upplýstari eftir „Vísindi á laugardegi“

Eftir Fréttir

Í dag var þriðji og síðasti fræðslufundur Göngum saman í röðinni „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“. 

Samstarfshópur á Landspítalanum um rannsóknir á brjóstakrabbameini tóku á móti félagsmönnum Göngum saman og öðrum áhugasömum og kynntu fyrir gestum rannsóknir hópsins og mikilvægi grunnrannsókna við greiningu og meðferð brjóstakrabbameina. Góður rómur var gerður að örfyrirlestrum Óskars Þórs Jóhannssonar krabbameinslæknis, Rósu Bjarkar Barkardóttur sameindalíffræðings, Aðalgeirs Arasonar líffræðings, Ingu Reynisdóttur sameinda- og frumulíffræðings og Bjarna Agnars Agnarssonar meinafræðings. Þá var gestum boðið að skoða aðstöðuna á Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði og ræða við starfsfólkið.

Mikil ánægja var með fræðslufundinn í dag eins og þá fyrri og vil Göngum saman þakka vísindafólkinu sem hefur gert fundina svo fræðandi og skemmtilega.

Vísindi á laugardegi á Landspítala næsta laugardag kl. 13

Eftir Fréttir

Á laugardaginn verður þriðji og síðasti fræðslufundurinn í fræðslufundaröð Göngum saman um gildi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini, „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“.

Laugardaginn 17. mars kl. 13 í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut (í tengibyggingunni milli Barnaspítalans og Kvennadeildar) mun samstarfshópur um rannsóknir á brjóstakrabbameini á Landspítalanum taka á móti félögum Göngum saman og öðrum áhugasömum.  Þau Aðalgeir Arason líffræðingur, Bjarni Agnar Agnarsson meinafræðingur og yfirlæknir Rannsóknastofu í meinafræði, Inga Reynisdóttir, sameinda- og frumulíffræðingur, Óskar Þór Jóhannsson krabbameinslæknir og erfðaráðgjafi og Rósa Björk Barkardóttir, sameindalíffræðingur munu hver fyrir sig halda einn örfyrirlestur (hver fyrirlestur 10 mínútur) sem tengjast greiningu (Bjarni), meðferð (Óskar) og rannsóknum á brjóstakrabbameini (Aðalgeir, Inga og Rósa). Í framhaldinu verður opið hús hjá Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði þar sem gestum gefst kostur á að hitta starfsfólk og fræðast um stofnunina. Þau munu leiða okkur í gegnum greiningarferil lífssýnis sem tekið er þegar grunur vaknar um krabbamein. Einnig verður sýnd einangrun á erfðaefni úr blóðsýnum og ferill þess gegnum raðgreiningatæki.

Boðið verður upp á hressingu.

Auðveldast er að fara inn í Barnaspítala Hringsins og inn í tengibygginguna þaðan.

Allir velkomnir.