Skip to main content
Monthly Archives

nóvember 2008

Fréttir frá Göngum saman á Akureyri

Eftir Fréttir

Síðastliðið þriðjudagskvöld mættu 13 konur og gengu um bæinn og fóru á kaffihús. Akureyrarkonur hafa verið duglegar að ganga í vetur og hingað til hefur ekki eitt einasta skipti fallið niður. Eftir áramót er stefnt að því að ganga frá mismunandi stöðum u.þ.b. einn mánuð í einu. Þetta verður kynnt á heimasíðunni á nýju ári!

Hér er mynd af göngukonum á kaffihúsi að lokinni göngu:-)

 

 

Kort til styrktar Göngum saman

Eftir Fréttir

Göngum saman hefur hafið sölu á kortum með mynd eftir Sigurborgu Stefánsdóttur myndlistarkonu. Kortin eru seld 5 saman í pakka og kostar pakkinn 1500 kr.

Bæði er hægt að fá kortin með jólakveðju og einnig án texta og er þá hægt að nota þau sem tækifæriskort allan ársins hring.

Hægt er að panta kort á netfanginu gongumsaman@gongumsaman.is

Endilega látið vini og vandamenn vita.

 

Mánudagsgöngurnar í Reykjavík

Eftir Fréttir

Frá því í haust hafa 30-50 manns gengið með Göngum saman á mánudagskvöldum undir forystu Guðnýjar Aradóttur stafgönguþjálfara sem hefur séð til þess að allir teygji vel í lok göngu. Í september og fram í október var hist við Perluna og gengið mismunandi leiðir í og við Öskjuhlíðina. Undir lokin var orðið ansi dimmt og gott að flytja yfir í Laugardalinn en þar hefur verið gengið síðasta mánuðinn.

Nú er búið að ákveða að ganga áfram í Laugardalnum fram í aðventuna en flytja gönguna síðan niður í miðbæ og ganga saman í bænum tvö mánudagskvöld fyrir jól, þ.e. 8. og 15. desember. Þá munum við hittast við Fríkirkjuna. Reynsla okkar í fyrravetur var að þegar dimmir meira, og snjór og svell fara að vera algengara er gott að vera í vellýstum miðbænum með upphitaðar gangstéttir.