Skip to main content

Vísindi á laugardegi – vel sóttur fundur um helgina

Eftir febrúar 27, 2012Fréttir

Annar fundurinn í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" var haldinn í Læknagarði á laugardaginn er rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors tók á móti gestum. Góð mæting var á fundinn og almenn ánægja með fyrirlestur Þórarins og kynningu nemenda á því sem fram fer á rannsóknastofunni. Í erindi Þórarins gerði hann grein fyrir stofnfrumum í gangvirkni líkamans og hlutverk þeirra í að skilja uppruna og eðli krabbameins.

Fréttakona Sjónvarpsins nýtti sér boðið um heimsókn í Læknagarð og kynnti sér stofnfrumurannsóknir. Viðtöl við Þórarinn og Gunnhildi Óskarsdóttur formanns Göngum saman var í fréttatíma Sjónvarpsins á laugardagskvöldinu. Sjá hér, umfjöllunin byrjar á 15:35.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í hringsal Landspítalans (á milli Barnaspítala Hringsins og Kvennadeildar) laugardaginn 16. mars og þá mun samstarfshópur á Landspítala um rannsóknir á brjóstakrabbameini taka á móti gestum.