Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Göngum saman í Þórsmörk

Eftir Fréttir

Laugardaginn 4. júní 2022 verður haldinn styrktar- og gönguviðburðurinn GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK. Markmið viðburðarins er að koma saman, njóta frábærrar útivistar í einstakri náttúru og safna um leið fé til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails, í samvinnu við Göngum saman, hefur skipulagt frábæra dagskrá þar sem boðið verður upp á rútuferðir, göngu, grillveislu og kvöldvöku við varðeld. Lagt verður upp frá Húsadal og gönguleiðsögn verður um þrjár mismunandi leiðir svo allir ættu að finna göngu við hæfi. Þátttakendur greiða skráningargjald sem rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman, auk þess sem Volcano trails leggur fram mótframlag.

Nokkrir mismunandi gistimöguleikar eru í boði alla helgina og veitingasala er í Húsadal.

Dagsferð er einnig möguleg og eru rútuferðir í boði frá ýmsum stöðum.

Göngufólk getur einnig lagt málefninu lið með því að safna áheitum fyrir gönguna.

Nánari upplýsingar og skráning  HÉR.

Brauð&co selur snúða til styrktar Göngum saman

Eftir Fréttir

Nú nálgast mæðradagurinn og eins og undanfarin ár standa snillingarnir hjá Brauð&co fyrir fjáröflunarátaki fyrir styrktarsjóð Göngum saman.

Stuðningur þeirra hefur verið félaginu afar mikils virði.

Alla vikuna 2. – 8. maí verða gómsætir hindberjasnúðar seldir í bakaríum þeirra og rennur allt söluandvirði snúðanna óskipt í styrktarsjóðinn.

Nú treystum við á að velunnarar  Göngum saman geri sér dagamun, kaupi gómsæta snúða og styrki um leið félagið.

Verði ykkur að góðu!

Styrkir 2021

Eftir Fréttir

Þann 28. október sl. veitti Göngum saman rannsóknarstyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Alls námu styrkirnir í ár 10,5 milljónum króna. Þetta var í fjórtánda skipti sem Göngum saman veitir styrki og hefur þar með veitt alls nær 120 milljónum króna til brjóstakrabbameinsrannsókna.

Fjórir aðilar fengu styrk að þessu sinni:

Dr. Kristinn Ragnar Óskarsson, nýdoktor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, hlaut 3 milljónir króna til verkefnisins „Skoðun á breytingu í bindingu krabbameinsvaldandi stökkbrigða af FoxA1 við litnisagnir“

María Rose Bustos, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 2,7 milljónir króna til verkefnisins „Brjóstaæxli BRCA2999Δ5 arfbera“

Snædís Ragnarsdóttir, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 2,3 milljónir króna til verkefnisins „BRCA2 stökkbreyting, tap á villigerðarsamsætu og meðferð“

Dr. Snævar Sigurðsson, rannsóknasérfræðingur við Lífvísindasetur Háskóla Íslands hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Heildstæð úttekt á gena og prótín tjáningu í brjóstastofnfrumulínu D492 í tvívíðri og þrívíðri rækt og í myndun greinóttra formgerðar og bandvefsumbreytingu“

Styrkveitingin fór fram í Hannesarholti og söng tónlistarkonan Ingibjörg Steingrímsdóttir nokkur lög við það tækifæri.

Styrkveiting 2021

Eftir Fréttir

Frá stofnun Göngum saman árið 2007 höfum við veitt rúmlega 107 milljónum til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Við höldum ótrauð áfram, þökk sé öllum þeim sem hafa lagt söfnun okkar lið, og í ár verður 10,5 milljónum veitt til vísindamanna á Íslandi.

Styrkveitingin verður í Hannesarholti fimmtudaginn 28. október kl. 17.30 og eru allir velkomnir.

Umsækjendur kynna verkefni sín

Eftir Fréttir
Fimmtudaginn 21. október kl. 18 munu fjórir umsækjendur um styrk úr vísindasjóði Göngum saman kynna verkefni sín fyrir félagsmönnum.
Kynningarnar verða í stofu HT-300 á þriðju hæð í Háskólatorgi HÍ. Gengið upp stigann við Bóksölu stúdenta.
Allir velkomnir.