Skip to main content

Laugardaginn 8. júní 2024 verður haldinn styrktar- og gönguviðburðurinn GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK. Markmið viðburðarins er að koma saman, njóta frábærrar útivistar í einstakri náttúru og safna um leið fé til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails, í samvinnu við Göngum saman, hefur skipulagt frábæra dagskrá þar sem boðið verður upp á rútuferðir, göngu, grillveislu og kvöldvöku við varðeld.

Lagt verður upp frá Húsadal og gönguleiðsögn verður um tvær mismunandi leiðir. Tindfjallahringurinn er 12 km og fremur krefjandi með bröttum köflum og nokkurri hækkun en Merkurhringurinn er um 6 km fremur létt leið með aflíðandi brekkum og auðvelt að stytta leiðina frekar ef þörf krefur. Fyrir þá sem vilja jafnvel enn styttri útgáfu er lítið mál að rölta um á flatlendi og njóta útsýnisins við Húsadal eða ganga yfir í Langadal og mæta öðru göngufólki þar.

Þátttakendur greiða skráningargjald sem rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman og Volcano trails leggur fram mótframlag. Þetta er í þriðja sinn sem Volcano trails leggur Göngum saman lið á þennan hátt.

Rútuferðir verða í boði frá Reykjavík, Selfossi, Hellu og Hvolsvelli en einnig verður boðið upp á ferð yfir Krossá fyrir þá sem koma þangað á eigin jeppa.

Fjölbreyttir gistimöguleikar eru í Húsadal ef fólk vill lengja dvölina í Mörkinni.

Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Volcano trails.