Í dag 16. október veitti styrktarfélagið Göngum saman íslenskum rannsóknaraðilum á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini rannsóknarstyrki að fjárhæð kr. 10.3 milljónir króna. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 50 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins fyrir sjö árum.Styrkveitingin var haldin í Hannesarholti, Grundarstíg 9, Reykjavík. Í upphafi athafnarinnar léku þær Laufey Lin, Junia Lin og Lilja Cardew á fiðlu, selló og píanó Trio Elegiaque eftir Rachmaninoff og að styrkveitingu lokinni söng oktett úr Karlakórnum Fóstbræðrum nokkur lög.
Styrkurinn skiptist á milli sex aðila:
- Anna Marzellíusardóttir,:Leit að áhrifabreytingum í erfðaefni fjölskyldna með háa tíðni brjóstakrabbameins. 1,8 milljón króna.
- Borgþór Pétursson: Áhrif sviperfða á lyfjanæmi í brjósta- og eggjastokkakrabbameinum 2 milljónir króna
- Helga Þráinsdóttir: Samspil TGFbeta og Thrombospodin-1 í æðaþeli og brjóstakrabbameini 1,5 milljónir króna
- Jón Þór Bergþórsson: Vefjastofnfrumur og krabbameinfrumur í brjóstkirtli: eiginleikar þeirra og lyfjanæmi 1 milljón króna
- Ólafur Andri Stefánsson: Vægi sviperfða sem forspáþættir í brjóstakrabbameinum 1,5 milljónir króna
- Þorkell Guðjónsson: Áhrif USPL1 á eðlilega virkni BRCA1 og huganlegt hlutverk í þróun brjóstakrabbameins 2,5 milljónir króna
Styrkþegar f.v. : Ólafur Andri Stefánsson, Borgþór Pétursson, Anna Marzellíusardóttir, Guðrún Valdimarsdóttir f.h. Helgu Þráinsdóttur, Jón Þór Bergþórsson og Þorkell Guðjónsson.
Göngum saman byggir starf sitt á þátttöku almennings. Styrkveitingin í ár byggir að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í styrktargöngu félagsins, Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Fjölskylda Kristbjargar Marteinsdóttur sem var formaður fjáröflunarnefndar Göngum saman þegar hún lést árið 2009, aðeins tæplega 45 ára gömul, veitti félaginu 2.5 milljónir í styrktarsjóðinn. Styrkurinn er afrakstur minningargöngu um Kristbjörgu 30. ágúst s.l. þar sem gengið var í gegnum Héðinsfjarðargöng og kvöldskemmtunar sem haldin var í Allanum á Siglufirði sama dag. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið.
Göngum saman þakkar af alhug ómetanlegan stuðning og velvild og óskar styrkþegum innilega til hamingju.