Í gær á mæðradaginn var í fyrsta sinn gengið í Reykjanesbæ undir merki Göngum saman. Og Suðurnesjafólk fjölmennti svo sannarlega í gönguna, hátt í 300 manns gengu og studdu þannig félagið. Það er ákaflega mikilvægt fyrir félag eins og Göngum saman að finna fyrir svo miklum stuðningi. Fólk klæddi sig vel og naut hreyfingarinnar þrátt fyrir kalsann en gengið var í sól og roki. Þetta var yndislegur dagur og mikil stemming á staðnum.
Göngum saman þakkar undirbúningsnefndinni í Reykjanesbæ og öllum þeim sem tóku þátt í göngunni fyrir að taka eins myndarlega á móti Göngum saman í bænum og raunin var. Það er gott að margir vilja ganga saman og varða leiðina til betri skilnings á eðli og uppruna brjóstakrabbameins og þannig stuðla að betri meðferð fyrir þær konur sem greinast með sjúkdóminn. Þetta er langhlaup en vonandi mun vísindafólk framtíðarinnar finna lækningu. Við tökum þátt því rannsóknirnar gefa okkur von til framtíðar.