Um 300 manns nýttu langþráð tækifæri til að koma saman í stórkostlegri náttúrufegurð Þórsmerkur laugardaginn 5. Júní. Veðrið lék við göngufólk sem naut leiðsagnar um tvær mismunandi gönguleiðir; Merkurhring og Tindfjallahring. Að göngu lokinni var haldin grillveisla og kvöldvaka við varðeld. Óhætt er að segja að mikil gleði ríkti í Mörkinni.
Það var fyrirtækið Volcano trails sem átti frumkvæði að og skipulagði þessa gönguhelgi þar sem safnað var fé til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Skráningargjöld þátttakenda runnu óskipt í styrktarsjóð Göngum saman og að auki lögðu Volcano trails fram mótframlag. Alls söfnuðust 2,1 milljón króna.
Það er Göngum saman ómetanlegt að fá svo öflugan stuðning og við þökkum Volcaino trails og öllu því góða fólki sem tók þátt kærlega fyrir.