Í byrjun desember fór Hulda Ólafsdóttir ásamt fleiri konum til Tanzaníu. Við undirbúning ferðarinnar óskaði Hulda eftir að hitta konur til að fræðast um fullorðinsfræðslu. Í ferðinni hittu þær hóp kvenna sem fyrir tæpu ári síðan höfðu stofnað með sér formlegan hóp en markmið hópsins er að konurnar styðji við hver aðra og kenna hver annarri að sauma í þeim tilgangi að selja og afla sér tekna.
Íslensku og afrísku konurnar áttu langt, fróðlegt og mjög skemmtilegt tal undir berum himni. Undir lok fundarins færðu íslensku konurnar þeim afrísku Göngum saman buff en Mímir-símenntun gaf buffin og styrkti þannig bæði Göngum saman og gladdi þennan skemmtilega hóp afrískra kvenna. Konurnar voru mjög ánægðar með gjöfina og voru ekki síst hrifnar af því að á Íslandi væru konur með svipuð markmið og þær sjálfar þ.e. að konur styðja konur þótt það sé á ólíkum sviðum.
Göngum saman þakkar Mími-símenntun fyrir stuðninginn og Huldu og stöllum hennar fyrir að koma þessu í kring. Það er ánægjulegt að sjá flottu buffin okkar á höfðum þessara flottu kvenna.