Skip to main content

Styrkþegi Göngum saman valinn ungur vísindamaður 2012 á Lsp

Eftir apríl 26, 2012Fréttir

Sævar Ingþórsson, líffræðingur og doktorsnemi við HÍ sem hlaut styrk úr rannsóknasjóði Göngum saman á síðasta ári var valinn ungur vísindamaður ársins 2012 á Landspítala. Þetta var tilkynnt á uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum, Vísindum á vordögum, sem hófst í gær 25. apríl 2012 með opnun veggspjaldasýningar og vísindadagskrá.

Sævar lauk B.S. prófi í líffræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands 2008. Hann hóf doktorsnám í líf- og læknavísindum við læknadeild HÍ 2009 og starfar á Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum sem er rekin af Magnúsi Karli Magnússyni prófessor og Þórarni Guðjónssyni dósent.

Doktorsverkefni Sævars nefnist "Hlutverk sprouty próteina í stjórn EGFR boðleiða í brjóstaþekjufrumum" og er markmið þess að að rannsaka hlutverk og samskipti Sprouty-2 við EGFR týrósín kínasa viðtaka fjölskylduna í greinóttri formgerð brjóstkirtilsins og kortleggja áhrif yfirtjáningar og sívirkrar tjáningar viðtakanna í framþróun æxlisvaxtar í brjóstkirtli. Í rannsóknunum er notast við þrívíð frumuræktunarlíkön og frumulínur, bæði úr heilbrigðum vef og krabbameinsvef, ásamt frumulínu með stofnfrumueiginleika.

Göngum saman óskar Sævari til hamingju með viðurkenninguna og þennan góða árangur.

Hér sést Sævar Ingþórsson, ungur vísindamaður Landspítala-Háskólasjúkrahúss árið 2012 á kynningu Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum í febrúar s.l. í fræðslufundaröð Göngum saman "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini".