Kristbjörg Marteinsdóttir félagi í Göngum saman og formaður fjáröflunarnefndar félagsins lést 11. nóvember s.l. tæplega 45 ára að aldri.
Kittý mætti fyrst í mánudagsgöngu hjá styrktarfélaginu Göngum saman vorið 2008, þá hafði brjóstakrabbameinið sem hún hafði greinst með rúmum fjórum árum áður tekið sig upp. Hún var ákveðin í að vinna bug á því og fann að göngur höfðu góð áhrif á hana, bæði á líkama og sál. Hún fann sig í Göngum saman og mætti með glöðum hópi vinkvenna sinna og gekk með okkur vikulega á meðan hún gat. Kittý ákvað að fara i Avon gönguna í New York í okótóber fyrir rúmu ári síðan. Þar gekk hún eitt og hálft maraþon og safnaði áheitum í styrktarsjóð Göngum saman. Þessi mikla ganga var mikið afrek fyrir hana sem var í erfiðri lyfjameðferð. Á árlegri styrkveitingu Göngum saman síðar um haustið afhenti hún okkur stolt háa upphæð sem vinir og velunnarar höfðu heitið á hana, en það sem skipti félagið ekki minna máli var að hún ákvað að vera virkur félagi. Kittý vildi hafa áhrif og kom með hugmyndir og nýjar víddir inn í félagið. Hún vildi leggja sitt að mörkum til að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini á Íslandi og gerði það svo sannarlega. Hún var formaður fjáröflunarnefndar Göngum saman og hugmyndir hennar voru óþrjótandi. Að hennar frumkvæði mun félagið standa fyrir kvöldgöngu á safnanótt á vetrarhátíð Reykjavíkur í febrúar n.k. Það voru forréttindi að kynnast henni og við félagar hennar í Göngum saman færum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur og þökkum fyrir samfylgdina.
Nýlegar athugasemdir