Skip to main content
Monthly Archives

maí 2025

Göngum saman í Þórsmörk

Eftir Fréttir

Laugardaginn 31. maí 2025 verður haldinn styrktar- og gönguviðburðurinn GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK. Markmið viðburðarins er að koma saman, njóta frábærrar útivistar í einstakri náttúru og safna um leið fé til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails, í samvinnu við Göngum saman, hefur skipulagt frábæra dagskrá þar sem boðið verður upp á rútuferðir, göngu, grillveislu og kvöldvöku við varðeld.

Lagt verður upp frá Húsadal og gönguleiðsögn verður um tvær mismunandi leiðir. Tindfjallahringurinn er 12 km og fremur krefjandi með bröttum köflum og nokkurri hækkun en Merkurhringurinn er um 6 km fremur létt leið með aflíðandi brekkum og auðvelt að stytta leiðina frekar ef þörf krefur. Fyrir þá sem vilja jafnvel enn styttri útgáfu er lítið mál að rölta um á flatlendi og njóta útsýnisins við Húsadal eða ganga yfir í Langadal og mæta öðru göngufólki þar.

Þátttakendur greiða skráningargjald sem rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman og Volcano trails leggur fram mótframlag. Þetta er í fjórða sinn sem Volcano trails leggur Göngum saman lið á þennan hátt.

Rútuferðir verða í boði til og frá Reykjavík á göngudegi. Til og frá Hvolsvelli föstudag til sunnudags og einnig ferð yfir Krossá fyrir þá sem koma þangað á eigin jeppa.

Fjölbreyttir gistimöguleikar eru í Húsadal ef fólk vill lengja dvölina í Mörkinni.

Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Volcano trails.

Mæðradagsganga sunnudaginn 11. maí kl. 11

Eftir Fréttir
Á Mæðradaginn, sunnudaginn 11. maí, efnir Göngum saman til vorgöngu.
Gengið verður frá Háskólatorgi kl. 11 undir lúðrablæstri. Genginn verður stuttur hringur  um Suðurtjörnina í Hljómskálagarði. Ganga við allra hæfi.
Á Háskólatorgi munu vísindamenn sem þegið hafa styrki Göngum saman kynna verkefni sín og og tónlistarmaðurinn Einar Lövdahl skemmtir gestum.
Gangan er gjaldfrjáls en göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini með frjálsum framlögum eða með því að kaupa prjónauppskriftir og höfuðklúta með merki Göngum.
Við hvetjum til þátttöku í þessari fjölskylduvænu útiveru.

Brjóstasnúðarnir komnir í sölu

Eftir Fréttir

Mæðradagurinn nálgast og sjöunda árið í röð standa snillingarnir hjá Brauð&co fyrir fjáröflunarátaki fyrir styrktarsjóð Göngum saman.

Stuðningur þeirra hefur verið félaginu afar mikils virði.

Gómsætir hindberjasnúðar  verða seldir í bakaríum þeirra 2. – 11. maí og rennur allt söluandvirði snúðanna óskipt í styrktarsjóðinn.

Nú treystum við á að velunnarar  Göngum saman geri sér dagamun, kaupi gómsæta snúða og styrki um leið félagið.

Verði ykkur að góðu!