Göngum saman stendur á næstunni fyrir fræðslufundum fyrir almenning um gildi rannsókna sem beinast að því að skilja eðli og uppruna brjóstakrabbameins. Félagið hefur fengið þrjá rannsóknahópa sem fengið hafa styrki frá Göngum saman til að taka þátt í röð fræðslufunda sem verða með þriggja vikna millibili undir heitinu „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“. Fyrsti fundurinn verður 4. febrúar n.k. kl. 13.
Rannsóknahópur Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessors við læknadeild Háskóla Íslands ríður á vaðið laugardaginn 4. febrúar og býður félögum Göngum saman, gestum þeirra og öðrum sem áhuga hafa að koma í heimsókn í Læknagarð, byggingu Læknadeildar Háskóla Íslands, Vatnsmýravegi 16. Jórunn mun fyrst kynna rannsóknir þeirra og hvernig þær hafa haft áhrif á skilning okkar á brjóstakrabbameini og síðan verður gestum boðið að skoða aðstöðu rannsóknahópsins. Boðið verður upp á kaffi.
Sjá upplýsingar um einstaka fundi í „Vísindi á laugardegi“ á viðburðardagatalinu á heimasíðunni.
Nýlegar athugasemdir