S.l. miðvikudag afhentu nemendur unglingadeildar Háaleitisskóla samtökunum Göngum saman 184.070,00 kr. sem minningargjöf um Brynhildi Ólafsdóttur skólastjóra, sem lést í vetur. Það voru þeir Emil Þór Emilsson og Elías Orri Njarðarson sem afhentu Gunnhildi Óskarsdóttur gjöfina f.h. nemenda. Nemendur höfðu safnað peningum með því að halda flóamarkað í skólanum.
Verkefnið hófst með því að nemendur kynntu sér starfsemi ýmissa líknar- og hjálparsamtaka. M.a. kom Gunnhildur Óskarsdóttir og kynnti Göngum saman og Kjartan Birgisson sem kynnti Hjartaheill. Einnig fóru nemendur vítt og breytt um bæinn og hittu forsvarsmenn annarra hjálparsamtaka.
Í framhaldinu hófu þeir söfnun fyrir markaðinn sem var haldinn í skólanum. Fjöldi fyrirtækja studdi þau með gjöfum en nemendur komu líka með ýmislegt að heiman.
Foreldrar, systkini, afar og ömmur og aðrir íbúar hverfisins streymdu á markaðinn og fóru heim með fatnað, skrautmuni, bakkelsi, verkfæri, leikföng, gjafabréf á snyrtistofur, skartgripi o.fl. o.fl.
Göngum saman þakkar nemendum Háaleitisskóla innilega fyrir þeirra frábæra framtak og höfðinglega styrk sem fer beint í styrktarsjóð félagsins.
Nýlegar athugasemdir