Fjörutíu og fimm félagar úr Göngum saman fögnuðu 10 ára afmæli félagsins með því að fara til New York og hvetja þátttakendur í Avon göngunni sem fram fór í NY 14 og 15 okt. sl. en 10 ár eru síðan 22 konur tóku þátt í Avon göngunni í NY og stofnuðu Göngum saman. Mikil stemning var á hliðarlínunni og gleði í íslenska hópnum sem hvatti göngufólk óspart og þakkaði fyrir.
Afmælismálþing Göngum saman var haldið í dag í tilefni af 10 ára afmæli félagsins. Málþingið sem var haldið í Veröld – Húsi Vigdísar var afar vel sótt og dagskrá mjög áhugaverð og fjölbreytt.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og verndari Göngum saman hélt stutt ávarp og bauð fólk velkomið og Jón Atli Benediktsson rektor HÍ flutti ávarp og setti málþingið. Aðalfyrirlesari var Jórunn Erla Eyfjörð prófessor emirítus en einnig héldu erindi Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman, Birna Þorvaldsdóttir doktorsnemi við HÍ, Rósa Björk Barkardóttir klínískur prófessor við LSH og Magnús Karl Magnússon prófessor við HÍ. Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti flutti ávarp f.h. Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Fundarstjóri var Friðbjörn Sigurðsson læknir.
Tónlistaratriði settu svip sinn á dagskrána en brassbandið Hljómfríður spilaði í upphafi málþingsins, Auður Hafsteinsdóttir lék á fiðlu og Karlakórinn Fóstbræður söng. Í móttöku að málþingi loknu lék dúettinn Svísur og vísur nokkur lög en hann skipar Vigdís Hafliðadóttir og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir.
Hápunktur dagsins var styrkveiting félagsins.
Styrkþegar Göngum saman 2017 eru:
Anna Karen Sigurðardóttir doktorsnemi við HÍ – 1 milljón til verkefnisins: ”Stýring greinóttrar formgerðar og bandvefsumbreytingar í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli“
Berglind Eva Benediktsdóttir dósent við HÍ – 2 milljónir til verkefnisins: ”Exósóm sem nýr meðferðarmöguleiki gegn þríneikvæðum brjóstakrabbameinum”
Elísabet A. Frick doktorsnemi við HÍ – 2 milljónir til verkefnisins: ”Hlutverk miR-190b í þróun brjóstakrabbameins”
Inga Reynisdóttir sérfræðingur á meinafræðideild LSH – 2,8 milljónir til verkefnisins: ”Hugsanleg áhrif sjálfsátsgens í framvindu brjóstakrabbameins“
Sigurður Trausti Karvelsson doktorsnemi við HÍ – 2,2 milljónir til verkefnisins: ”Auðkenning efnaskiptabreytinga við bandvefsumbreytingu brjóstaþekju“.
Styrkþegar með formanni Göngum saman
Nýlegar athugasemdir