Skip to main content
Monthly Archives

janúar 2010

Göngum saman á Safnanótt föstudaginn 12. febr

Eftir Fréttir

Vasaljósaganga Göngum saman verður á Safnanótt 2010. Á föstudagskvöldið 12. febrúar n.k. mun gangan hefjast við Þjóðminjasafnið, gengið verður um vesturbæinn og að Vesturbæjarsundlaug sem verður opin til miðnættis fyrir þátttakendur göngunnar. Lagt verður af stað eftir síðasta viðburð í safninu (um kl. 22:15) en við hvetjum fólk til að mæta tímanlega og kíkja á safnið áður en gangan hefst. Göngum saman verður með lítil vasaljós með merki félagsins til sölu í tilefni göngunnar og rennur allur ágóðinn í styrktarsjóð félagsins.

Fjölmennum og hvetjum fólk í kringum okkur til að mæta.

Kaffifundur og fyrirlestur um hamingjuna

Eftir Fréttir

Laugardaginn 16. janúar n.k. kl. 10:30 – 12:00 býður Göngum saman félögum sínum til morgunverðarfundar í húsnæði Ljóssins, Langholtsvegi 43.

Erna Magnúsdóttir forstöðumaður mun kynna starsemi Ljóssins. Síðan verður boðið upp á morgunverð og fyrirlestur um hamingjuna sem Anna Jóna Guðmundsdóttir sálfræðingur mun halda.  

Óskað er eftir að þátttakendur greiði 1000 kr. í kaffisjóð, sjá auglýsingu í pdf skjali.

Kaffifundur.pdf

Göngum saman buffin í Afríku

Eftir Fréttir

Í byrjun desember fór Hulda Ólafsdóttir ásamt fleiri konum til Tanzaníu. Við undirbúning ferðarinnar óskaði Hulda eftir að hitta konur til að fræðast um fullorðinsfræðslu. Í ferðinni hittu þær hóp kvenna sem fyrir tæpu ári síðan höfðu stofnað með sér formlegan hóp en markmið hópsins er að konurnar styðji við hver aðra og kenna hver annarri að sauma í þeim tilgangi að selja og afla sér tekna.

Íslensku og afrísku konurnar áttu langt, fróðlegt og mjög skemmtilegt tal undir berum himni. Undir lok fundarins færðu íslensku konurnar þeim afrísku Göngum saman buff en Mímir-símenntun gaf buffin og styrkti þannig bæði Göngum saman og gladdi þennan skemmtilega hóp afrískra kvenna. Konurnar voru mjög ánægðar með gjöfina og voru ekki síst hrifnar af því að á Íslandi væru konur með svipuð markmið og þær sjálfar þ.e. að konur styðja konur þótt það sé á ólíkum sviðum.

Göngum saman þakkar Mími-símenntun fyrir stuðninginn og Huldu og stöllum hennar fyrir að koma þessu í kring. Það er ánægjulegt að sjá flottu buffin okkar á höfðum þessara flottu kvenna.