Skip to main content
All Posts By

Margrét Baldursdóttir

Uppskeruhátíð og styrkveiting

Eftir Fréttir

Árleg styrkveiting Göngum saman verður mánudaginn 28. október í Hannesarholti og hefst kl. 17.

Veittar verða 15 milljónir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini á Íslandi.

Göngum saman þakkar öllum þeim sem hafa lagt söfnuninni lið og býður velunnurum að njóta uppskerunnar í Hannesarholti.

Styrkir til grunnrannsókna

Eftir Fréttir

Stjórn Göngum saman auglýsir eftir umsóknum um styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Áætlað er að veita allt að 15 milljónum króna í styrki á árinu 2024.

Göngum saman er grasrótarfélag með það markmið að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.  Þetta verður í 18. skipti sem úthlutað verður styrkjum úr vísindasjóði Göngum saman en félagið hefur veitt 150 milljónum króna í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna frá stofnun þess árið 2007.

Vísindamenn og nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir geta sótt um styrk. Styrkir eru veittir til eins árs. Skilyrði er að verkefnið flokkist sem grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Ekki er veittur styrkur til tækjakaupa né til ferðalaga.

Umsækjendur skulu fylla út umsóknareyðublað sem er að finna á heimasíðu Göngum saman.

Þar er einnig að finna almennar upplýsingar og leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar.

Umsókn skal senda á netfangið styrkir@gongumsaman.is fyrir lok dags þriðjudagsins 10. september 2024. Ekki er tekið við síðbúnum umsóknum.

Styrkir eru veittir skv. áherslum félagsins og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna. Göngum saman getur óskað eftir frekari upplýsingum og/eða farið fram á að umsækjendur kynni verkefni sín áður en endanleg ákvörðun um styrkveitingu er tekin. Stjórn Göngum saman áskilur sér rétt til að ákveða skiptingu styrkja, sem og að hafna öllum umsóknum.

Úthlutun styrkja fer fram í október en sá mánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini.

Hvetjum okkar fólk

Eftir Fréttir

Í Reykjavíkurmaraþoninu , laugardaginn 24. ágúst, safna tuttugu og sex hlauparar áheitum fyrir Göngum saman. Þetta góða fólk á skilið að fá pepp og hlaupastyrk frá okkur hinum sem ekki hlaupum.

Hvatningastaður Göngum saman verður eins og undanfarin ár á horninu á Lynghaga og Ægissíðu. Takið daginn snemma og komið að hvetja hlauparana okkar. Hafið með  ykkur eitthvað sem heyrist í, potta, sleifar, hrossabresti.

Fyrstu hlauparar leggja af stað frá Lækjargötunni kl. 8.40 og verða komnir á Ægissíðuna nokkrum mínútum síðar.

Áheitunum er komið til skila á hlaupastyrkur.is

 

Reykjavíkurmaraþon 24. ágúst

Eftir Fréttir

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2024 fer fram 24. ágúst. Fjórar vegalengdir verða í boði og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Að venju gefst þátttakendum kostur á að styrkja gott málefni með áheitasöfnun.

Göngum saman er eitt þeirra félaga sem hlauparar geta valið að styrkja og hefur maraþonið verið mikilvæg fjáröflunarleið síðustu ár.

Við hvetjum alla velunnara Göngum saman til að skrá sig á hlaupastyrkur.is og safna áheitum á Göngum saman.

Sjá nánar um vegalengdir og skráningargjald hér.

Brjóstasnúðar til styrktar Göngum saman

Eftir Fréttir

Mæðradagurinn nálgast og eins og undanfarin ár standa snillingarnir hjá Brauð&co fyrir fjáröflunarátaki fyrir styrktarsjóð Göngum saman.

Stuðningur þeirra hefur verið félaginu afar mikils virði.

Alla vikuna 6. – 12. maí verða gómsætir hindberjasnúðar seldir í bakaríum þeirra og rennur allt söluandvirði snúðanna óskipt í styrktarsjóðinn.

Nú treystum við á að velunnarar  Göngum saman geri sér dagamun, kaupi gómsæta snúða og styrki um leið félagið.

Verði ykkur að góðu!

Aðalfundur Göngum saman 2024

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman 2024 verður haldinn mánudaginn 13. maí kl. 17.30, á Óðinsgötu 7, 4. hæð.

Dagskrá:

  1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.
  2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
  3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
  4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
  5. Ákvörðun árgjalds.
  6. Önnur mál.
    – Kynntar verða niðurstöður stefnumótunarfundar sem haldinn var í mars.

 

Uppskrift nýju peysunnar sem Védís Jónsdóttir hannaði

Eftir Fréttir

Védís Jónsdóttir hefur hannað gullfallega peysu fyrir Göngum saman í tilefni af fyrirhuguðum gönguviðburði í Þórsmörk 8. júní. Viðburðinn skipuleggur ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails í samvinnu við Göngum saman.  Þetta er þriðja gangan í Þórsmörk og Védís hannaði einmitt göngupils fyrir síðustu göngu.

Uppskrift af peysunni kostar kr. 2500 og er send rafræn. Einnig er hægt að fá uppskrift af pilsinu en hún kostar kr. 2000.
Athugið að uppskriftirnar eru einungis til einkanota.
Vinsamlega leggið inn á reikning Göngum saman. Kt. 650907-1750. Reikningur 301-13-304524.
Sendið kvittun á gongumsaman@gongumsaman.is.
Látið tölvupóstfang fylgja með og við sendum rafræna uppskrift.

Gleðifundur á miðvikudag

Eftir Fréttir

Miðvikudaginn 10. apríl kl. 16 – 17.30 verður gleðifundur í verslun Handprjónasambandsins, Borgartúni 31.

Þar verður sýnd gullfalleg peysa sem Védís Jónsdóttir hannaði fyrir Göngum saman í tilefni af fyrirhuguðum gönguviðburði í Þórsmörk 8. júní. Viðburðinn skipuleggur ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails í samvinnu við Göngum saman.  Þetta er þriðja gangan í Þórsmörk og Védís hannaði einmitt göngupils fyrir síðustu göngu.

Við verðum með peysuna til sýnis og uppskrift til sölu á pappír – en hún verður einnig seld rafrænt. Kíkið við, krækið ykkur í uppskrift og garn og styrkið gott málefni. Hver einasta króna af sölu uppskriftarinnar fer í grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.

Hlökkum til að sjá ykkur í versluninni – og í peysunni í Þórsmörk í sumar.