Skip to main content
All Posts By

Margrét Baldursdóttir

Hamingjustund Göngum saman

Eftir Fréttir

Fimmtudaginn 7. október kl. 17 fögnum við hjá Göngum saman bleikum október með hamingjustund í Mengi, Óðinsgötu 2.

Gunnhildur Óskarsdóttir ávarpar gesti og Ólöf Arnalds flytur ljúfa tóna.

Boðið verður upp nýtt málverk eftir listakonuna Huldu Vilhjálmsdóttur  sem sigrast hefur á brjóstakrabbameini.

Óvenjuleg verk Huldu hafa náð miklum vinsældum á Íslandi og vakið athygli bæði hér heima og erlendis.

Gleðjumst saman og styrkjum gott starf. Drykkur og óvæntur glaðningur kemur með aðgöngumiðanum.

Við hlökkum til að sjá ykkur.

Maraþoni 2021 aflýst Hlauptu þína leið

Eftir Fréttir

Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið aflýst í ár en samt er hægt að láta gott af sér leiða.

Sett hefur verið af stað átakið Hlauptu þína leið, þar sem hlauparar eru hvattir til að hlaupa sjálfir og safna styrkjum fyrir sitt góðgerðarfélag á vefnum hlaupastyrkur.is. Átakið stendur til 20. september.

Þeim sem höfðu hugsað sér að heita á hlaupara Göngum saman er bent á að styrkja má félagið beint þó ekki verði af fjöldahlaupinu.

Smelltu hér ef þú vilt styrkja vísindasjóð Göngum saman.

 

Styrkir til grunnrannsókna

Eftir Fréttir

Stjórn Göngum saman auglýsir eftir umsóknum um styrki til grunnrannsókna á
brjóstakrabbameini. Áætlað er að veita allt að 10 milljónum króna í styrki á árinu 2021.

Vísindamenn og nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi við íslenska háskóla og
rannsóknastofnanir geta sótt um styrk. Skilyrði er að verkefnið flokkist sem grunnrannsóknir á
brjóstakrabbameini. Ekki er veittur styrkur til tækjakaupa.

Umsóknareyðublað og almennar upplýsingar um útfyllingu umsóknar má nálgast hér á hér á heimasíðunni.

Umsókn skal senda á netfangið styrkir@gongumsaman.is fyrir lok dags mánudagsins 6. september
2021. Ekki er tekið við síðbúnum umsóknum.

Styrkir eru veittir skv. áherslum félagsins og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna.
Göngum saman getur óskað eftir frekari upplýsingum og/eða farið fram á að umsækjendur kynni
verkefni sín áður en endanleg ákvörðun um styrkveitingu er tekin. Stjórn Göngum saman áskilur sér
rétt til að ákveða skiptingu styrkja, sem og að hafna öllum umsóknum.

Úthlutun styrkja fer fram í október en sá mánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini

Söfnuðu yfir 200 þúsundum í áheitum

Eftir Fréttir

Fimm vinkonur sem kalla sig Rubicon Krjú söfnuðu áheitum meðal vina og ættingja í tengslum við Þórsmerkurgönguna 5. júní.

Samtals söfnuðu þær kr. 205.500 sem rennur auðvitað beint í styrktarsjóð Göngum saman.

Í hópnum eru Auður Þórhallsdóttir, Áslaug Tóka Gunnlaugsdóttir, Ragna Eiríksdóttir, Þórey Þórarinsdóttir og Elfa Björk Eiríksdóttir.

Göngum saman kann þeim bestu þakkir fyrir þetta frábæra framlag.

 

Við þökkum fyrir stuðninginn

Eftir Fréttir

Um 300 manns nýttu langþráð tækifæri til að koma saman í stórkostlegri náttúrufegurð Þórsmerkur laugardaginn 5. Júní. Veðrið lék við göngufólk sem naut leiðsagnar um tvær mismunandi gönguleiðir; Merkurhring og Tindfjallahring. Að göngu lokinni var haldin grillveisla og kvöldvaka við varðeld. Óhætt er að segja að mikil gleði ríkti í Mörkinni.

Það var fyrirtækið Volcano trails sem átti frumkvæði að og skipulagði þessa gönguhelgi þar sem safnað var fé til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Skráningargjöld þátttakenda runnu óskipt í styrktarsjóð Göngum saman og að auki lögðu Volcano trails fram mótframlag. Alls söfnuðust 2,1 milljón króna.

Það er Göngum saman ómetanlegt að fá svo öflugan stuðning og við þökkum Volcaino trails og öllu því góða fólki sem tók þátt kærlega fyrir.

Göngum saman í Þórsmörk

Eftir Fréttir

Laugardaginn 5. júní 2021 verður haldinn styrktar- og gönguviðburðurinn GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK. Markmið viðburðarins er að koma saman og ganga hina frábæru gönguleið Þórsgötu og safna um leið fé til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails, í samvinnu við Göngum saman, hefur skipulagt frábæra dagskrá þar sem boðið verður upp á rútuferðir, göngu, grillveislu og kvöldvöku við varðeld. Gönguleiðsögn verður um tvær mismunandi leiðir; Merkurhringinn og Tindfjallahringinn svo allir ættu að finna göngu við hæfi. Þátttakendur greiða skráningargjald sem rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman, auk þess sem Volcano trails leggur fram mótframlag.

Nánari upplýsingar og skráning  HÉR.

Áheitaganga til minningar um Iðunni Geirsdóttur

Eftir Fréttir

Þann 20 maí leggja eigendur ferðaþjónustunnar Skotgöngu, þau Inga, Snorri og Magga, upp í 154 km langa áheitagöngu til styrktar Göngum saman. Gangan er til minningar um Iðunni Geirsdóttur, systur Ingu, sem hefði orðið 50 ára á þessu ári en hún lést úr brjóstakrabbameini aðeins 47 ára. Iðunn var öflugur liðsmaður Göngum saman og skipulagði fjáröflunargöngur á Austurlandi með miklum myndarbrag auk annarra starfa fyrir félagið.

Inga, Snorri og Magga ætla að ganga West Highland Way sem er ein vinsælasta gönguleið Skotlands. Venjulega ganga þau leiðina með hópa á einni viku en í þetta sinn ætla þau að ljúka göngunni á fjórum dögum. Síðustu vikur hafa þau málað 50 steina í fallegum litum og hyggjast varða gönguleiðina til gleði fyrir þá fjölmörgu sem ganga hana árlega. Hér má sjá nokkrar myndir frá gönguleiðinni .

Áheitasöfnun er hafin og stendur út maímánuð. Greiða má með korti eða leggja inn á söfnunarreikning Göngum saman.
Smellið hér til að styrkja þetta frábæra framtak þeirra þriggja.
.
Fylgist með göngugörpunum á facebooksíðu Skotgöngu.