Göngum saman auglýsir eftir umsóknum um styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Áætlað er að veita allt að 10 milljónum í styrki á árinu 2017.
Vísindamenn og nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi (meistara- eða doktorsnámi) við háskóla og rannsóknastofnanir geta sótt um styrk.
Skilyrði er að verkefnið flokkist sem grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Ekki er veittur styrkur til tækjakaupa
Umsóknum skal skilað á sérstöku umsóknareyðublaði sjá hér: gs_styrkumsokn_2017.doc fyrir 4. september nk. á netfangið styrkir@gongumsaman.is merkt -Styrkumsókn 2017
Styrkurinn verður veittur í október, en októbermánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini.
Sjá einnig auglýsingu: auglysing_styrkur_2017.doc
Landssamband bakarameistara, LABAK, hefur afhent styrktarfélaginu Göngum saman styrk að upphæð 1 milljón króna sem safnaðist með sölu á brjóstabollum í maí síðastliðnum. Sala á brjóstabollum hefur verið árviss viðburður í bakaríum um allt land síðastliðin sjö ár. Afrakstur sölunnar hefur runnið óskiptur til styrkja vegna grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og er heildarupphæðin sem bakarar hafa afhent Göngum saman orðin 9 milljónir króna.
Jóhannes Felixson, formaður LABAK, segir ánægjulegt að geta stutt svo verðugt málefni sem Göngum saman stendur fyrir. „Bakarar um allt land hafa verið reiðubúnir að taka þátt í verkefninu síðastliðin sjö ár og landsmenn hafa sýnt þessu velvilja með því að kaupa bollurnar. Við teljum málefnið mikilvægt og það er gott til þess að vita að vísindin njóti góðs af þessum styrkjum frá okkur.“
Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, segir starfsemi félagsins miða að því að safna fé og efla styrktarsjóð fyrir rannsóknir. „Við viljum taka þátt í því mikilvæga starfi að rannsaka eðli og uppruna krabbameins í brjóstum. Frá stofnun höfum við úthlutað rúmlega 70 milljónum króna í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna. Það munar mikið um þennan stuðning frá bökurunum og þökkum við af heilum hug fyrir þeirra framlag.“
Jóhannes Felixson, formaður LABAK, afhendir Gunnhildir Óskarsdóttur, formanni Göngum saman, styrkinn.
Mánudagsgöngur í Reykjavik eru komnar í sumarfrí, fylgist með á viðburðardagatalinu og facebooksiðu Göngum saman hvenær göngur hefjast aftur.
Styrktarganga Göngum saman fór fram á 14 stöðum á landinu í dag. Hátt á annað þúsund manns tók þátt á landsvísu og vel safnaðist í styrktarsjóðinn. Einnig var gengið á Tenerife og í Lucca á ítalíu.
Í Reykjavik fór gangan frá Háskólatorgi þar sem seldur var söluvarningur félagsins auk þess sem mikilfengleg hlutavelta sló í gegn og seldust miðarnir upp. Karlakórinn Fóstbræður tók lagið á Háskólatorgi og Skólahljómsveit Austurbæjar spilaði göngufólki til mikilllar ánægju, auk þess sem frænkurnar Nanna Hlíf Ingvadóttir og Kristín Valsdóttir þöndu nikkurnar fyrir göngufólk.
Göngum saman þakkar öllum sem tóku þátt innanlands sem untan innilega fyrir þátttökuna og stuðninginn.
Myndir frá nokkrum göngustöðum:
Reykjavík
Hveragerði
Hvammstangi
Siglufjörður
Neskaupsstaður
Ólafsfjörður
Höfn
Ísafjörður
Akureyri
Lucca, Ítalíu Tenerife
Styrktarganga Göngum saman 2017 fer fram á mæðradaginn, sunnudaginn 14. maí n.k. Við stefnum að því að fá sem flesta með okkur en í ár fögnum við 10 ára afmæli félagsins.
Gengið verður á 14 stöðum um allt land; Borgarnes, Stykkishólmur, Patreksfjörður, Ísafjörður, Hvammstangi, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Akureyri, Vopnafjörður, Neskaupsstaður, Reyðarfjörður, Höfn, Hveragerði og Reykjavík. Til viðbótar verður einnig gengið á Tenerife.
Nánari upplýsingar um göngustaði er að finna hér.
Oddfellowstúkan Þorgerður veitti í gær Göngum saman eina milljón króna í styrk til stuðnings grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman veitti styrknum viðtöku.
Göngum saman þakkar innilega fyrir þennan höfðinglega styrk.
Hildur Yeoman fatahönnuður hefur hannað hettupeysur, boli og taupoka í tilefni af 10 ára afmæli Göngum saman. Boðið var til fagnaðar í versluninni Yeoman, Skólavörðustíg í dag, fimmtudaginn 4. apríl. Vörurnar vöktu mikla hrifningu og seldust vel. Þær verða áfram seldar í búðinni og einnig í göngunni á mæðradaginn 14. maí nk.
Mæðradagsganga Göngum saman verður haldin um land allt sunnudaginn 14. maí kl. 11:00
Gengið verður á 13 stöðum um allt land, auk þess sem nú verður í fyrsta skipti gengið á Tenerife. Nánari upplýsingar um göngustaði koma síðar.
Nýlegar athugasemdir