Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Göngum saman í Þórsmörk

Eftir Fréttir

Laugardaginn 5. júní 2021 verður haldinn styrktar- og gönguviðburðurinn GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK. Markmið viðburðarins er að koma saman og ganga hina frábæru gönguleið Þórsgötu og safna um leið fé til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Ferðaþjónustufyrirtækið Volcano trails, í samvinnu við Göngum saman, hefur skipulagt frábæra dagskrá þar sem boðið verður upp á rútuferðir, göngu, grillveislu og kvöldvöku við varðeld. Gönguleiðsögn verður um tvær mismunandi leiðir; Merkurhringinn og Tindfjallahringinn svo allir ættu að finna göngu við hæfi. Þátttakendur greiða skráningargjald sem rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman, auk þess sem Volcano trails leggur fram mótframlag.

Nánari upplýsingar og skráning  HÉR.

Áheitaganga til minningar um Iðunni Geirsdóttur

Eftir Fréttir

Þann 20 maí leggja eigendur ferðaþjónustunnar Skotgöngu, þau Inga, Snorri og Magga, upp í 154 km langa áheitagöngu til styrktar Göngum saman. Gangan er til minningar um Iðunni Geirsdóttur, systur Ingu, sem hefði orðið 50 ára á þessu ári en hún lést úr brjóstakrabbameini aðeins 47 ára. Iðunn var öflugur liðsmaður Göngum saman og skipulagði fjáröflunargöngur á Austurlandi með miklum myndarbrag auk annarra starfa fyrir félagið.

Inga, Snorri og Magga ætla að ganga West Highland Way sem er ein vinsælasta gönguleið Skotlands. Venjulega ganga þau leiðina með hópa á einni viku en í þetta sinn ætla þau að ljúka göngunni á fjórum dögum. Síðustu vikur hafa þau málað 50 steina í fallegum litum og hyggjast varða gönguleiðina til gleði fyrir þá fjölmörgu sem ganga hana árlega. Hér má sjá nokkrar myndir frá gönguleiðinni .

Áheitasöfnun er hafin og stendur út maímánuð. Greiða má með korti eða leggja inn á söfnunarreikning Göngum saman.
Smellið hér til að styrkja þetta frábæra framtak þeirra þriggja.
.
Fylgist með göngugörpunum á facebooksíðu Skotgöngu.

Brauð&co með átak til styrktar Göngum saman

Eftir Fréttir

Enn á ný standa meistararnir hjá Brauð&co fyrir fjáröflunarátaki fyrir styrktarsjóð Göngum saman.

Stuðningur þeirra hefur verið félaginu afar mikils virði.

Alla vikuna 3. – 9. maí verða gómsætir hindberjasnúðar seldir í bakaríum þeirra og rennur allt söluandvirði snúðanna óskipt í styrktarsjóðinn.

Nú treystum við á að velunnarar  Göngum saman geri sér dagamun, kaupi gómsæta snúða og styrki um leið félagið.

Verði ykkur að góðu!

Aðalfundur Göngum saman 2021

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman 2021 verður haldinn á fjarfundaformi mánudaginn 26. apríl  kl. 17:30.

Dagskrá:

  1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.
  2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
  3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
  4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
  5. Ákvörðun árgjalds.
  6. Önnur mál.

Félagar eru eindregið hvattir til að taka þátt á fundinum með því að velja þessa  slóð á zoom.

 

Göngum saman í Þórsmörk

Eftir Fréttir

Laugardaginn 5. júní 2021 stendur ferðaþjónustufyrirtækið Volcano Trails fyrir styrktar- og gönguviðburðinum GÖNGUM SAMAN Í ÞÓRSMÖRK.

Markmið viðburðarins er að koma saman og ganga hina frábæru gönguleið Þórsgötu og safna um leið áheitum til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Skráningargjald þátttakenda rennur óskipt í styrktarsjóð Göngum saman.

Gakktu með okkur og upplifðu óviðjafnanlega náttúru Þórsmerkur um leið og þú styrkir gott málefni.

Allar nánari upplýsingar og skráning HÉR

Styrkir 2020

Eftir Fréttir

Þann 27. október sl. veitti Göngum saman 6,7 milljónum króna í rannsóknarstyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Þrír aðilar fengu styrk að þessu sinni:

Arna Steinunn Jónasdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 3 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli“.

Clara Valls Ferré, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 2,2 milljónir króna til verkefnisins „Æxlingar úr brjóstakrabbameinssjúklingum meðhöndlaðir með æðaþelssértækum sameindalyfjum“.

Sævar Ingþórsson, lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hlaut 1,5 milljónir króna til verkefnisins „Ummyndunaráhrif HER2 yfirtjáningar í heilbrigðum brjóstaþekjufrumum“.

Styrkveitingin var um margt óvenjuleg í ár vegna Covid-19 faraldursins. Hún fór fram á Zoom fjarfundi, þar sem styrkþegar, félagsmenn og velunnarar félagsins um allt land og einnig erlendis frá tóku þátt. Tvíeykið Vísur og skvísur fluttu tónlistaratriði.

Styrkveiting 2020

Eftir Fréttir

Árleg styrkveiting til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini verður þriðjudaginn 27. október kl.17 og í ár verður hún á fjarfundarformi.

Frá stofnun Göngum saman  árið 2007 höfum við veitt um 100 milljónum til vísindamanna á Íslandi.

Við höldum ótrauð áfram, þökk sé öllum þeim sem hafa lagt söfnun okkar lið.

Gleðjist með okkur – á zoom í ljósi aðstæðna.