Skip to main content
Monthly Archives

maí 2010

Akureyringar gengu með Dalvíkingum á mánudaginn

Eftir Fréttir

Fimm konur úr Akureyrardeild Göngum saman heimsóttu Dalvíkurdeildina og gengu með þeim í vikulegri göngu þeirra síðast liðið mánudagskvöld. Eftir gönguna var sest inn á kaffiteríuna í Menningarhúsinu Bergi og spjallað lengi. Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og stefna Dalvíkurkonur á að ganga með Akureyrardeildinni eitthvert þriðjudagskvöldið og fara á kaffihús á eftir.

Inner Wheel færir Göngum saman höfðinglega gjöf

Eftir Fréttir

Félagskonur Inner Wheel í Reykjavík færðu í gær Göngum saman höfðinglega peningagjöf sem rennur beint í styrktarsjóð félagsins. Sigurveig Erlingsdóttir forseti Inner Wheel afhenti Gunnhildi Óskarsdóttur formanni Göngum saman gjöfina.

Göngum saman þakkar innilega fyrir þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

Á myndinni eru f.v. Helga Jónasdóttir, Sigurveig Erlingsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Margrét Erlendsdóttir og Ragnhildur Vigfúsdóttir

Fjölmenni í Laugardalnum í morgun

Eftir Fréttir

Mikið var gaman að ganga saman í Laugardalnum í morgun. Þangað mættu margir, ungir sem aldnir og nutu þess að ganga í vorblíðunni í Reykjavík. Gengið var um Laugardalinn í um klukkustund og var góð stemming í göngunni eins og sjá má á myndunum sem komnar eru inn í myndaalbúmið, það skín gleði úr hverju andliti.

Þetta er í annað sinn sem Göngum saman skipurleggur vorgöngu á mæðradaginn og er hún hugsuð sem upphafið af undirbúningi stóru styrktargöngunnar sem verður 5. september n.k. á nokkrum stöðum á landinu.

Góð umfjöllun um Göngum saman í N4 sjónvarpinu

Eftir Fréttir

S.l. föstudag var gott viðtal í sjónvarpinu N4 við tvær Göngum saman konur á Akureyi, þær Sigríði Síu Jónsdóttur og Þorgerði Sigurðardóttur. Viðtalið var í tilefni kynningarfundar Göngum saman í Sigurhæðum á laugardaginn en Sigríður og Þorgerður sögðu frá félaginu og starfsemi félagsins á Akureyri. Á meðan á viðtalinu stóð rúlluðu ljósmyndir á skjánum frá starfinu á Akureyri auk nokkurra mynda frá ferð Sigríðar og fleiri í Avon gönguna í New York haustið 2007, ferðin sem varð til þess að Göngum saman var stofnað. Unnt er að sjá viðtalið á netinu.

Fjölskylduganga í Laugardalnum n.k. sunnudag

Eftir Fréttir

Í tilefni mæðradagsins n.k. sunnudag 9. maí býður Göngum saman ungum sem öldnum í klukkustundargöngu um Laugardalinn, lagt verður af stað frá Skautahöllinni kl. 11.

Nú er veggspjald með auglýsingu um gönguna tilbúið og hægt er að nálgast það hér.

GongumSaman_A4_Vor.pdf.

Gangan er gjaldfrjáls en tekið verður við frjálsum framlögum í styrktarsjóðinn auk þess sem skemmtilegur varningur verður seldur fyrir og eftir göngu og rennur andvirði sölunnar einnig í styrktarsjóðinn.

Gangan markar upphafið að undirbúningi fyrir Stóru styrktargönguna 5. september næstkomandi en þá verður gengið víða um land.

Vinsamlega látið sem flesta vita af göngunni.

Fjölmennum og göngum saman í vorinu.

                                       Frá vorgöngunni á mæðradaginn 2009.

Mjög góður fundur á Akureyri 1. maí

Eftir Fréttir

Mjög góð mæting var á vel heppnaðan morgunverðarfund Göngum saman á Akureyri 1. maí. Fimmtíu manns mættu á fundinn sem byrjaði á dásamlegum morgunverði. Sigríður Sía Jónsdóttir bauð fólk velkomið og síðan sagði Gísli Sigurgeirsson frá séra Matthíasi Jochumssyni og Sigurhæðum. Gunnhildur Óskarsdóttir og Margrét Baldursdóttir kynntu síðan félagið og Þorgerður Sigurðardóttir og Guðný Ólafsdóttir sögðu frá starfinu á Akureyri og á Dalvík. Að lokum hélt Anna Jóna Guðmundsdóttir sálfræðikennari og sérfræðingur í jákvæðri sálfræði frábæran fyrirlestur um hamingjuna og hvernig við getum verið hamingjusamari. Með það fóru allir út í vorið sem er greinilega komið á Akureyri.