Í dag 16. október veitti styrktarfélagið Göngum saman íslenskum rannsóknaraðilum á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini rannsóknarstyrki að fjárhæð kr. 10.3 milljónir króna. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 50 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins fyrir sjö árum.Styrkveitingin var haldin í Hannesarholti, Grundarstíg 9, Reykjavík. Í upphafi athafnarinnar léku þær Laufey Lin, Junia Lin og Lilja Cardew á fiðlu, selló og píanó Trio Elegiaque eftir Rachmaninoff og að styrkveitingu lokinni söng oktett úr Karlakórnum Fóstbræðrum nokkur lög.
Styrkurinn skiptist á milli sex aðila:
- Anna Marzellíusardóttir,:Leit að áhrifabreytingum í erfðaefni fjölskyldna með háa tíðni brjóstakrabbameins. 1,8 milljón króna.
- Borgþór Pétursson: Áhrif sviperfða á lyfjanæmi í brjósta- og eggjastokkakrabbameinum 2 milljónir króna
- Helga Þráinsdóttir: Samspil TGFbeta og Thrombospodin-1 í æðaþeli og brjóstakrabbameini 1,5 milljónir króna
- Jón Þór Bergþórsson: Vefjastofnfrumur og krabbameinfrumur í brjóstkirtli: eiginleikar þeirra og lyfjanæmi 1 milljón króna
- Ólafur Andri Stefánsson: Vægi sviperfða sem forspáþættir í brjóstakrabbameinum 1,5 milljónir króna
- Þorkell Guðjónsson: Áhrif USPL1 á eðlilega virkni BRCA1 og huganlegt hlutverk í þróun brjóstakrabbameins 2,5 milljónir króna
-
Styrkþegar f.v. : Ólafur Andri Stefánsson, Borgþór Pétursson, Anna Marzellíusardóttir, Guðrún Valdimarsdóttir f.h. Helgu Þráinsdóttur, Jón Þór Bergþórsson og Þorkell Guðjónsson.
Göngum saman byggir starf sitt á þátttöku almennings. Styrkveitingin í ár byggir að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í styrktargöngu félagsins, Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Fjölskylda Kristbjargar Marteinsdóttur sem var formaður fjáröflunarnefndar Göngum saman þegar hún lést árið 2009, aðeins tæplega 45 ára gömul, veitti félaginu 2.5 milljónir í styrktarsjóðinn. Styrkurinn er afrakstur minningargöngu um Kristbjörgu 30. ágúst s.l. þar sem gengið var í gegnum Héðinsfjarðargöng og kvöldskemmtunar sem haldin var í Allanum á Siglufirði sama dag. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið.
Göngum saman þakkar af alhug ómetanlegan stuðning og velvild og óskar styrkþegum innilega til hamingju.
Nýlegar athugasemdir