Í dag miðvikudaginn 12. október 2016 veitti Göngum saman 10 milljónum króna í rannsóknarstyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 70 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007. Styrkveitingin sem fram fór í Hannesarholti var sérstaklega ánægjuleg. Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari og María Emilía Garðarsdóttir nemandi Auðar léku tvö lög á fiðlu og oktett úr karlakórnum Fóstbræðrum söng. Fjölmenni var við styrkveitinguna og forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid ásamt Eddu litlu dóttur sinni heiðruðu samkomuna með nærveru sinni. Frú Eliza afhenti styrkþegum styrkina sem var mjög ánægjulegt.
Sex aðilar fengu styrk að þessu sinni:
· Arnar Sigurðsson, meistaranemi í Líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 1 milljón króna styrk fyrir verkefnið Hlutverk miðlægra kolefnisefnaskipta í bandvefslíkri umbreytingu stofnfruma í brjóstkirtli
· Elísabet Alexandra Frick, doktorsnemi í Líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 2,5 milljón krónur í styrk fyrir verkefnið Starfsemi miR-190b í brjóstakrabbameinum
· Gunnhildur Ásta Traustadóttir nýdoktor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands hlaut 1,75 milljóna króna styrk fyrir verkefnið Hlutverk Delta-like 1 homolog (DLK1) í greinóttri formgerð brjóstkirtils og brjóstakrabbameini
· Helga Þráinsdóttir , meistaranemi Líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands hlaut 1 milljón króna styrk fyrir verkefnið Samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma
· Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár hlaut 2 milljóna króna styrk fyrir verkefnið Líffræðilegur munur á brjóstakrabbameinsæxlum BRCA2 arfbera og kvenna án BRCA2 stökkbreytingar
· Ólafur Andri Stefánsson, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands hlaut 1,75 milljónir króna í styrk fyrir verkefnið TP53 (p53) og BRCA1 óvirkjun í tengslum við lyfjasvörun brjóstakrabbameinssjúklinga
Styrkþegar frá vinstri ásamt Gunnhildi Óskarsdóttur formanni Göngum saman: Guðrún Valdimarsdóttir fyrir hönd Helgu Þráinsdóttur, Arnar Sigurðsson, Ólafur Andri Stefánsson, Elísabet Alexandra Frick, Gunnhildur Ásta Traustadóttir og Laufey Tryggvadóttir.
Nýlegar athugasemdir