Skip to main content
All Posts By

a8

Vísindi á laugardegi – vel sóttur fundur um helgina

Eftir Fréttir

Annar fundurinn í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" var haldinn í Læknagarði á laugardaginn er rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors tók á móti gestum. Góð mæting var á fundinn og almenn ánægja með fyrirlestur Þórarins og kynningu nemenda á því sem fram fer á rannsóknastofunni. Í erindi Þórarins gerði hann grein fyrir stofnfrumum í gangvirkni líkamans og hlutverk þeirra í að skilja uppruna og eðli krabbameins.

Fréttakona Sjónvarpsins nýtti sér boðið um heimsókn í Læknagarð og kynnti sér stofnfrumurannsóknir. Viðtöl við Þórarinn og Gunnhildi Óskarsdóttur formanns Göngum saman var í fréttatíma Sjónvarpsins á laugardagskvöldinu. Sjá hér, umfjöllunin byrjar á 15:35.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í hringsal Landspítalans (á milli Barnaspítala Hringsins og Kvennadeildar) laugardaginn 16. mars og þá mun samstarfshópur á Landspítala um rannsóknir á brjóstakrabbameini taka á móti gestum.

Vísindi á laugardegi – næsti fræðslufundur á laugardaginn

Eftir Fréttir

Nú er komið að öðrum fræðslufundinum í fræðslufundaröð Göngum saman um gildi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini, „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“.

Laugardaginn 25. febrúar kl. 13 mun rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors taka á móti félögum Göngum saman og öðrum áhugasömum í Læknagarði og segja frá rannsóknum á stofnfrumum og hvernig þær hjálpa til við að skilja betur eðli og uppruna brjóstakrabbameins.

Þórarinn mun byrja fræðslufundinn með erindi í fyrirlestrarsalnum á 3. hæð í Læknagarði, byggingu Læknadeildar Háskóla Íslands, Vatnsmýrarvegi 16 og síðan verður fólki boðið að skoða rannsóknastofu hópsins á hæðinni fyrir ofan. Boðið verður upp á kaffi.

Sjá upplýsingar um einstaka fundi í fræðslufundaröðinni „Vísindi á laugardegi“ á viðburðardagatalinu á heimasíðunni.

Góður fundur í Læknagarði í gær

Eftir Fréttir

Góð mæting var á fyrsta fundinum í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" sem haldinn var í Læknagarði í gær. Jórunn Erla Eyfjörð prófessor hélt mjög áhugavert erindi þar sem hún fór yfir rúmlega 20 ára sögu rannsóknahópsins hennar og fjallaði um mikilvægi grunnrannsókna til að skilja eðli og uppruna krabbameins.

Eftir erindið var öllum boðið upp á rannsóknastofu hópsins og Jórunn ásamt samstarfsfólki ræddu við gestina.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í Læknagarði laugardaginn 25. febrúar og þá mun rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar og Magnúsar Karls Magnússonar taka á móti gestum.

Vísindi á laugardegi – heimsókn í Læknagarð á morgun

Eftir Fréttir

Á morgun laugardag veður haldinn fyrsti fræðslufundurinn í röðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" sem Göngum saman stendur fyrir.

Rannsóknahópur Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessors mun taka á móti fólki í Læknagarði, húsi Læknadeildar HÍ kl. 13. Vakin er athygli á viðtölum við Jórunni í Morgunblaðinu í gær fimmtudag og í þættinum "Samfélag í nærmynd" á rás 1.

Þessi fræðslufundaröð er einstakt tækifæri fyrir almenning að fræðast um mikilvægi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og hvernig þær eru undirstaða allra framfara í skilningi á meininu og þá bættum meðferðarúrræðum.

Allir velkomnir!

Læknagarður er staðsettur milli Hringbrautar og Gömlu Hringbrautar, neðan við Landspítalann, sjá kort að neðan.

Vísindi á laugardegi – fræðslufundir á 5 ára afmælisári GS

Eftir Fréttir

Göngum saman stendur á næstunni fyrir fræðslufundum fyrir almenning um gildi rannsókna sem beinast að því að skilja eðli og uppruna brjóstakrabbameins. Félagið hefur fengið þrjá rannsóknahópa sem fengið hafa styrki frá Göngum saman til að taka þátt í röð fræðslufunda sem verða með þriggja vikna millibili undir heitinu „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“. Fyrsti fundurinn verður 4. febrúar n.k. kl. 13.

Rannsóknahópur Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessors við læknadeild Háskóla Íslands ríður á vaðið laugardaginn 4. febrúar og býður félögum Göngum saman, gestum þeirra og öðrum sem áhuga hafa að koma í heimsókn í Læknagarð, byggingu Læknadeildar Háskóla Íslands, Vatnsmýravegi 16. Jórunn mun fyrst kynna rannsóknir þeirra og hvernig þær hafa haft áhrif á skilning okkar á brjóstakrabbameini og síðan verður gestum boðið að skoða aðstöðu rannsóknahópsins. Boðið verður upp á kaffi.

Sjá upplýsingar um einstaka fundi í „Vísindi á laugardegi“ á viðburðardagatalinu á heimasíðunni.

Vikulegar göngur að hefjast eftir jólafrí 23. jan

Eftir Fréttir

Mánudaginn 23. janúar hefjast á ný vikulegar göngur í Reykjavík og á Akureyri og Dalvík.

Akureyri: Lagt af stað frá Íþróttahöllinni kl. 17:30.  NB! frá og með næstu viku verður gengið á þriðjudögum á sama tíma.

Dalvík: Lagt af stað frá Bergi kl. 17:30.

Reykjavík: Lagt verður af stað frá Fríkirkjunni kl. 20.

Allir velkomnir!

Vikulegar göngur á Akureyri – frestun vegna færðar

Eftir Fréttir

Vikulegar göngur á Akureyri áttu einnig að hefjast nú um miðjan janúar eftir hátíðarnar en vegna erfiðrar færðar verður einhver töf á því. Fylgist vel með heimasíðunni því það verður tilkynnt hér um leið að ákvörðun liggur fyrir hvenær gögnurnar hefjast á ný.

Vikulegar göngur í Reykjavík hefjast ekki strax vegna færðar

Eftir Fréttir

Göngum saman óskar öllum gleðilegs árs og þakkar stuðninginn á síðasta ári.

Áætlað var að vikulegar göngur félagsins í Reykjavík hæfust aftur eftir gott jólafrí næsta mánudag en nú hefur verið ákveðið að fresta því til mánudagsins 23. janúar vegna erfiðrar færðar á gangstéttum borgarinnar.

Fylgist með heimasíðunni því ef frekari breytingar verða munu þær strax verða settar inn á síðuna.

Þá verður félagsmönnum send tilkynning er nær dregur til að minna á göngurnar.

Gjöf í minningu Kristbjargar Marteinsdóttur

Eftir Fréttir

Glerlistaverkið Dropinn eftir listakonuna Höllu Har var í gær sett upp í kaffistofu á 1. hæð húss Háskólans í Reykjavík. Verkið er gjöf til Göngum saman frá listakonunni og ættingjum Kristbjargar Marteinsdóttur (12.12.1964-11.11.2009) en hún var félagi í Göngum saman og var í meistaranámi í lýðheilsufræðum við HR þegar hún lést af völdum brjóstakrabbameins. Söfnun hefur staðið yfir vegna verksins og í gær upphæðin komin í 1,5 milljónir króna sem rennur óskert í styrktarsjóð félagsins.

Enn er hægt að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á söfnunarreikninginn.
Reikningsnúmer: 372-13-302703
Kennitala: 650907-1750

Göngum saman þakkar innilega þessa ómetanlegu gjöf og öllum þeim sem hafa lagt verkefninu lið.