Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Ungur hönnuður styrkir Göngum saman

Eftir Fréttir

Hlín Reykdal sem hefur getið sér gott orð í hönnun á skartgripum og fylgihlutum hefur hannað tvær gerðir af armböndum til styrktar Göngum saman. Verkefnið sem er í tilefni af fimm ára afmæli félagsins verður hleypt af stokkunum nú á fimmtudaginn, þ.e. 12. apríl í versluninni Kiosk á Laugavegi 65. Armböndin verða síðan til sölu í versluninni í apríl en við hvetjum fólk til að mæta á fimmtudaginn.

Það er mikill fengur fyrir Göngum saman að fá Hlín með í þetta verkefni og er henni þakkað ánægjulegt samstarf.

Göngum saman félagar upplýstari eftir „Vísindi á laugardegi“

Eftir Fréttir

Í dag var þriðji og síðasti fræðslufundur Göngum saman í röðinni „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“. 

Samstarfshópur á Landspítalanum um rannsóknir á brjóstakrabbameini tóku á móti félagsmönnum Göngum saman og öðrum áhugasömum og kynntu fyrir gestum rannsóknir hópsins og mikilvægi grunnrannsókna við greiningu og meðferð brjóstakrabbameina. Góður rómur var gerður að örfyrirlestrum Óskars Þórs Jóhannssonar krabbameinslæknis, Rósu Bjarkar Barkardóttur sameindalíffræðings, Aðalgeirs Arasonar líffræðings, Ingu Reynisdóttur sameinda- og frumulíffræðings og Bjarna Agnars Agnarssonar meinafræðings. Þá var gestum boðið að skoða aðstöðuna á Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði og ræða við starfsfólkið.

Mikil ánægja var með fræðslufundinn í dag eins og þá fyrri og vil Göngum saman þakka vísindafólkinu sem hefur gert fundina svo fræðandi og skemmtilega.

Vísindi á laugardegi á Landspítala næsta laugardag kl. 13

Eftir Fréttir

Á laugardaginn verður þriðji og síðasti fræðslufundurinn í fræðslufundaröð Göngum saman um gildi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini, „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“.

Laugardaginn 17. mars kl. 13 í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut (í tengibyggingunni milli Barnaspítalans og Kvennadeildar) mun samstarfshópur um rannsóknir á brjóstakrabbameini á Landspítalanum taka á móti félögum Göngum saman og öðrum áhugasömum.  Þau Aðalgeir Arason líffræðingur, Bjarni Agnar Agnarsson meinafræðingur og yfirlæknir Rannsóknastofu í meinafræði, Inga Reynisdóttir, sameinda- og frumulíffræðingur, Óskar Þór Jóhannsson krabbameinslæknir og erfðaráðgjafi og Rósa Björk Barkardóttir, sameindalíffræðingur munu hver fyrir sig halda einn örfyrirlestur (hver fyrirlestur 10 mínútur) sem tengjast greiningu (Bjarni), meðferð (Óskar) og rannsóknum á brjóstakrabbameini (Aðalgeir, Inga og Rósa). Í framhaldinu verður opið hús hjá Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði þar sem gestum gefst kostur á að hitta starfsfólk og fræðast um stofnunina. Þau munu leiða okkur í gegnum greiningarferil lífssýnis sem tekið er þegar grunur vaknar um krabbamein. Einnig verður sýnd einangrun á erfðaefni úr blóðsýnum og ferill þess gegnum raðgreiningatæki.

Boðið verður upp á hressingu.

Auðveldast er að fara inn í Barnaspítala Hringsins og inn í tengibygginguna þaðan.

Allir velkomnir.

Vísindi á laugardegi – vel sóttur fundur um helgina

Eftir Fréttir

Annar fundurinn í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" var haldinn í Læknagarði á laugardaginn er rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors tók á móti gestum. Góð mæting var á fundinn og almenn ánægja með fyrirlestur Þórarins og kynningu nemenda á því sem fram fer á rannsóknastofunni. Í erindi Þórarins gerði hann grein fyrir stofnfrumum í gangvirkni líkamans og hlutverk þeirra í að skilja uppruna og eðli krabbameins.

Fréttakona Sjónvarpsins nýtti sér boðið um heimsókn í Læknagarð og kynnti sér stofnfrumurannsóknir. Viðtöl við Þórarinn og Gunnhildi Óskarsdóttur formanns Göngum saman var í fréttatíma Sjónvarpsins á laugardagskvöldinu. Sjá hér, umfjöllunin byrjar á 15:35.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í hringsal Landspítalans (á milli Barnaspítala Hringsins og Kvennadeildar) laugardaginn 16. mars og þá mun samstarfshópur á Landspítala um rannsóknir á brjóstakrabbameini taka á móti gestum.

Vísindi á laugardegi – næsti fræðslufundur á laugardaginn

Eftir Fréttir

Nú er komið að öðrum fræðslufundinum í fræðslufundaröð Göngum saman um gildi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini, „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“.

Laugardaginn 25. febrúar kl. 13 mun rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar dósents og Magnúsar Karls Magnússonar prófessors taka á móti félögum Göngum saman og öðrum áhugasömum í Læknagarði og segja frá rannsóknum á stofnfrumum og hvernig þær hjálpa til við að skilja betur eðli og uppruna brjóstakrabbameins.

Þórarinn mun byrja fræðslufundinn með erindi í fyrirlestrarsalnum á 3. hæð í Læknagarði, byggingu Læknadeildar Háskóla Íslands, Vatnsmýrarvegi 16 og síðan verður fólki boðið að skoða rannsóknastofu hópsins á hæðinni fyrir ofan. Boðið verður upp á kaffi.

Sjá upplýsingar um einstaka fundi í fræðslufundaröðinni „Vísindi á laugardegi“ á viðburðardagatalinu á heimasíðunni.

Góður fundur í Læknagarði í gær

Eftir Fréttir

Góð mæting var á fyrsta fundinum í fræðslufundaröðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" sem haldinn var í Læknagarði í gær. Jórunn Erla Eyfjörð prófessor hélt mjög áhugavert erindi þar sem hún fór yfir rúmlega 20 ára sögu rannsóknahópsins hennar og fjallaði um mikilvægi grunnrannsókna til að skilja eðli og uppruna krabbameins.

Eftir erindið var öllum boðið upp á rannsóknastofu hópsins og Jórunn ásamt samstarfsfólki ræddu við gestina.

Næsti fræðslufundur í röðinni verður í Læknagarði laugardaginn 25. febrúar og þá mun rannsóknahópur Þórarins Guðjónssonar og Magnúsar Karls Magnússonar taka á móti gestum.

Vísindi á laugardegi – heimsókn í Læknagarð á morgun

Eftir Fréttir

Á morgun laugardag veður haldinn fyrsti fræðslufundurinn í röðinni "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini" sem Göngum saman stendur fyrir.

Rannsóknahópur Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessors mun taka á móti fólki í Læknagarði, húsi Læknadeildar HÍ kl. 13. Vakin er athygli á viðtölum við Jórunni í Morgunblaðinu í gær fimmtudag og í þættinum "Samfélag í nærmynd" á rás 1.

Þessi fræðslufundaröð er einstakt tækifæri fyrir almenning að fræðast um mikilvægi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og hvernig þær eru undirstaða allra framfara í skilningi á meininu og þá bættum meðferðarúrræðum.

Allir velkomnir!

Læknagarður er staðsettur milli Hringbrautar og Gömlu Hringbrautar, neðan við Landspítalann, sjá kort að neðan.

Vísindi á laugardegi – fræðslufundir á 5 ára afmælisári GS

Eftir Fréttir

Göngum saman stendur á næstunni fyrir fræðslufundum fyrir almenning um gildi rannsókna sem beinast að því að skilja eðli og uppruna brjóstakrabbameins. Félagið hefur fengið þrjá rannsóknahópa sem fengið hafa styrki frá Göngum saman til að taka þátt í röð fræðslufunda sem verða með þriggja vikna millibili undir heitinu „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“. Fyrsti fundurinn verður 4. febrúar n.k. kl. 13.

Rannsóknahópur Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessors við læknadeild Háskóla Íslands ríður á vaðið laugardaginn 4. febrúar og býður félögum Göngum saman, gestum þeirra og öðrum sem áhuga hafa að koma í heimsókn í Læknagarð, byggingu Læknadeildar Háskóla Íslands, Vatnsmýravegi 16. Jórunn mun fyrst kynna rannsóknir þeirra og hvernig þær hafa haft áhrif á skilning okkar á brjóstakrabbameini og síðan verður gestum boðið að skoða aðstöðu rannsóknahópsins. Boðið verður upp á kaffi.

Sjá upplýsingar um einstaka fundi í „Vísindi á laugardegi“ á viðburðardagatalinu á heimasíðunni.

Vikulegar göngur að hefjast eftir jólafrí 23. jan

Eftir Fréttir

Mánudaginn 23. janúar hefjast á ný vikulegar göngur í Reykjavík og á Akureyri og Dalvík.

Akureyri: Lagt af stað frá Íþróttahöllinni kl. 17:30.  NB! frá og með næstu viku verður gengið á þriðjudögum á sama tíma.

Dalvík: Lagt af stað frá Bergi kl. 17:30.

Reykjavík: Lagt verður af stað frá Fríkirkjunni kl. 20.

Allir velkomnir!