Umsóknarfrestur í styrktarsjóð Göngum saman rann út 10. ágúst s.l. og bárust 10 umsóknir. Vísindanefnd félagsins með aðstoð ráðgjafa mun nú fara yfir umsóknirnar og velja styrkþega ársins 2008. Úthlutun styrkja fer fram á alþjóðlegum degi brjóstakrabbameins í október n.k. og er þetta í annað sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum.
Bolir með merki Göngum saman eru komnir í sölu og renna út, enda flottir! Bolur með kvensniði (aðsniðinn) kostar kr. 2.500 (S, M, L og XL) og bolur með ‘almennu sniði’ (beinn) kostar kr. 2.000 (S, M, L, XL og XXL).
Bolina er hægt að panta á netfanginu gongumsaman@gongumsaman.is eða í vikulegu göngunum í Reykjavík, Akureyri og Borgarnesi.
Allur ágóði af sölu bolanna rennur beint í styrktarsjóð Göngum saman.
Hægt er að ná í auglýsingu og teikningu af bolunum í meðfylgjandi skjali:
Gongumsaman-bolir.pdf
Í Borgarbyggð hafa um 50 konur skráð sig í gönguhóp sem gengur í Borgarnesi á mánudögum. Gengið er frá Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi kl. 20:00 á mánudagskvöldum undir stjórn Guðrúnar Daníelsdóttur. Hópurinn stefnir að því að ganga í styrktargöngu Göngum saman í Elliðaárdalnum 7. september n.k. 🙂
Á mánudagskvöldið gengu 25 manns (23 konur og 2 karlar) í Laugardalnum og á þriðjudagskvöldið gengu 24 konur í Kjarnaskógi. Frábær stemning var á báðum stöðum 🙂
Þrátt fyrir rigninguna á Akureyri í gærkvöldi mættu nítján hressar konur í Kjarnaskóg og gengu í ausandi rigningu. Það verður gengið frá sama stað í næstu viku, þriðjudag kl. 19:30 og allir hvattir til að mæta.
Í kvöld gengu tæplega 40 manns um Laugardalinn undir tryggri stjórn Guðnýjar Aradóttur stafgönguþjálfara sem lét alla teygja vel á eftir. Veðrið lék við hópinn og það var ánægjulegt hve margir mættu í fyrstu gönguna sem auglýst var eftir opnun heimasíðunnar. Hvetjum alla til að mæta á sama stað, við Skautahöllina, næsta mánudag kl. 20.
Í dag var heimasíðan opnuð formlega í húsnæði Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Gunnhildur Óskarsdóttir formaður félagsins kynnti starf félagsins og fékk síðan börnin sem voru viðstödd til að opna síðuna með sér.
Reykjavíkurmaraþon Glitnis fer fram 23. ágúst n.k. Eins og fyrri ár geta þátttakendur safnað áheitum fyrir góðgerðar- og líknarfélög. Göngum saman er eitt þessara félaga og fólk er hvatt til að hlaupa eða ganga fyrir Göngum saman. Jafnframt eru allir hvattir til að heita á þá sem hlaupa fyrir Göngum saman. Sjá frekari upplýsingar um hvernig þetta virkar á heimasíðu Glitnis, sjá hér.
Tilkynnt hefur verið að Glitnir muni heita á starfsfólk og viðskiptavini sína. Styrktarfélag sem starfsmaður hleypur fyrir fær 1.000 krónur á hvern kílómetra og 300 krónur fyrir hvern kílómetra viðskiptavinar.
Á síðasta ári söfnuðust tæplega 1.500 þúsund í áheit fyrir Göngum saman.
Nokkrar áhugasamar konur á Akureyri hafa gengið til liðs við Göngum saman og ætla í sumar að hittast og ganga saman á þriðjudagskvöldum kl. 19:30 við þjónustuhúsið í Kjarnaskógi. Næsta ganga í Kjarnaskógi verður þriðjudaginn 24. júní. Allir velkomnir.
Stjórn Göngum saman fékk Þór Snæ Sigurðsson til að hanna nýja heimasíðu félagsins sem verður formlega opnuð á kvenréttindadaginn 19. júní n.k. Heimasíðunni er ætlað að vera upplýsingarmiðill félagsins og þar verður hægt að fylgjast með starfsemi þess og því sem framundan er. Vefsíðufyrirtækið Allra Átta sér um vistun og hugbúnað fyrir heimasíðuna. Göngum saman þakkar Þór sem gaf vinnu sína við hönnunina og Allra Átta sem styrkir félagið rausnarlega með heimasíðugerðinni. Merki félagsins sem sjá má í efra horninu vinstra megin hannaði Sigurborg Stefánsdóttir myndlistakona, ein stofnfélaga Göngum saman.
Nýlegar athugasemdir