Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Fréttir frá Göngum saman á Akureyri

Eftir Fréttir

Síðastliðið þriðjudagskvöld mættu 13 konur og gengu um bæinn og fóru á kaffihús. Akureyrarkonur hafa verið duglegar að ganga í vetur og hingað til hefur ekki eitt einasta skipti fallið niður. Eftir áramót er stefnt að því að ganga frá mismunandi stöðum u.þ.b. einn mánuð í einu. Þetta verður kynnt á heimasíðunni á nýju ári!

Hér er mynd af göngukonum á kaffihúsi að lokinni göngu:-)

 

 

Kort til styrktar Göngum saman

Eftir Fréttir

Göngum saman hefur hafið sölu á kortum með mynd eftir Sigurborgu Stefánsdóttur myndlistarkonu. Kortin eru seld 5 saman í pakka og kostar pakkinn 1500 kr.

Bæði er hægt að fá kortin með jólakveðju og einnig án texta og er þá hægt að nota þau sem tækifæriskort allan ársins hring.

Hægt er að panta kort á netfanginu gongumsaman@gongumsaman.is

Endilega látið vini og vandamenn vita.

 

Mánudagsgöngurnar í Reykjavík

Eftir Fréttir

Frá því í haust hafa 30-50 manns gengið með Göngum saman á mánudagskvöldum undir forystu Guðnýjar Aradóttur stafgönguþjálfara sem hefur séð til þess að allir teygji vel í lok göngu. Í september og fram í október var hist við Perluna og gengið mismunandi leiðir í og við Öskjuhlíðina. Undir lokin var orðið ansi dimmt og gott að flytja yfir í Laugardalinn en þar hefur verið gengið síðasta mánuðinn.

Nú er búið að ákveða að ganga áfram í Laugardalnum fram í aðventuna en flytja gönguna síðan niður í miðbæ og ganga saman í bænum tvö mánudagskvöld fyrir jól, þ.e. 8. og 15. desember. Þá munum við hittast við Fríkirkjuna. Reynsla okkar í fyrravetur var að þegar dimmir meira, og snjór og svell fara að vera algengara er gott að vera í vellýstum miðbænum með upphitaðar gangstéttir.

Styrkveiting Göngum saman árið 2008

Eftir Fréttir

Það var ánægjuleg stund í sal Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í dag er Göngum saman  veitti þrjá styrki til grunnrannsókna á krabbameini í brjóstum, alls 4 milljónir króna.
Þau sem hlutu styrk að þessu sinni voru Rósa Björk Barkardóttir fyrir verkefnið: Leit að nýjum genum sem hafa áhrif á sjúkdómsþróun hjá konum greindum með krabbamein í brjóstum. Aðalgeir Arason fyrir verkefnið: Leit að nýjum krabbameinsgenum í völdum fjölskyldum með háa tíðni brjóstakrabbameins og Þórarinn Guðjónsson og Magnús Karl Magnússon fyrir verkefnið: Hlutverk stofnfruma í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.

Áður en Gunnhildur formaður Göngum saman veitti styrkina afhenti Kristbjörg Marteinsdóttir, sem gekk 63 km í Avon göngunni í New York fyrr í mánuðinum, félaginu rúmlega 700 þúsund krónur í styrktarsjóð Göngum saman en peningurinn safnaðist sem áheit á Kittý í gönguninni í New York. Einnig afhentu göngufélagar Kittýrar frá New York tæplega 400 þúsund krónur í sjóðinn. Göngum saman þakkar þennan frábæra stuðning.

Við athöfnina í Skógarhlíðinni spilaði Ólafur Bogason menntaskólapiltur á klassískan gítar og Fóstbræður sungu nokkur lög.

 

Áheit í Glitnismaraþoni: Göngum saman eitt 5 efstu félaganna

Eftir Fréttir

Í dag var styrktarfélögum boðið í móttöku í höfuðstöðvum Glitnis til að taka við áheitum sem söfnuðust í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Glitnis 23. ágúst s.l. Það er gleðilegt að segja frá því að Göngum saman var eitt fimm félaga sem þátttakendur í hlaupinu söfnuðu yfir milljón krónur í áheit fyrir. Alls hlupu 132 fyrir Göngum saman og söfnuðu áheitum fyrir samtals 1.008.600 krónur. Göngum saman þakkar þeim öllum fyrir frábæran stuðning og öllum þeim fjölmörgu sem hétu á þá. TAKK.

 

Stjórn Göngum saman ásamt Birnu Einarsdóttur framkvæmdastjóra hjá Glitni við afhendingu áheita úr Reykjavíkurmaraþoni Glitnis.

Avon gangan í New York um helgina

Eftir Fréttir

Nú hugsum við hlýtt til kvennanna sem voru að leggja af stað í ævintýraferð til New York til að taka þátt í Avon göngunni. Það er mikil áskorun að ganga 63 km á tveimur dögum, en um leið er það mögnuð upplifun að ganga um götur Manhattan með fleiri þúsund manns til að láta gott af sér leiða með söfnun penings til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameinum og bættri umönnun. Kristbjörg eða Kittý er ein þessara kvenna og hún stofnaði bloggsíðu þar sem hún ætlar að halda okkur öllum upplýstum um ferðina, sjá hér.

Te og Kaffi kveður Kittý og styrkir Göngum saman

Eftir Fréttir

Samstarfsfólk Kristbjargar Marteinsdóttur hjá Te og Kaffi komu henni á óvart í morgun er þau héldu henni kveðjuhóf en hún fer ásamt hópi kvenna til New York á fimmtudaginn til að taka þátt í Avon göngunni. Af þessu tilefni keypti starfsfólkið sér öll Göngum saman boli og eins og sjá má á myndinni voru þau bara flott:-)

Te og Kaffi ákváðu að styrkja Göngum saman með sömu upphæð og starfsfólkið borgaði fyrir bolina. Við þökkum bæði starfsfókinu og fyrirtækinu þennan frábæra stuðning um leið og við óskum Kittý og öllu samferðarfólki hennar góðrar ferðar og velfarnaðar í New York.

 

Fjölmenni í Öskjuhlíðinni í kvöld

Eftir Fréttir

Það gengu 64 konur með Göngum saman í Öskjuhlíðinni í kvöld undir forystu Guðnýjar Aradóttur stafgönguþjálfara. Eftir um klukkustundar göngu sá Guðný líka til þess að við teygðum vel í lokin 🙂

Það verður gengið frá Perlunni að viku liðinni – á mánudagskvöldið kl. 20 og allir velkomnir, konur og karlar.

Stemning og gaman í styrktargöngunum

Eftir Fréttir

Yfir 1000 manns gengu saman á þremur stöðum á landinu til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini í gær, sunnudag. Það var mikil og góð stemming á öllum stöðunum og fólk lét veðrið ekki trufla sig. Við þökkum öllum þeim fjölmörgu sem styrktu félagið með því að ganga. Einnig þökkum við öllum sjálfboðaliðunum sem gerðu þetta mögulegt með vinnu sinni svo og þeim fjölmörgu aðilum sem studdu félagið við framkvæmdina.