Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Frábært framtak 10. bekkinga í félagsmiðstöðinni 105

Eftir Fréttir

Krakkar úr félagsmiðstöðinni 105 í 10. bekk Háteigsskóla eru með kökubasar til styrktar Göngum saman í Garðheimum í Mjódd frá klukkan 11.00-15.00 laugardaginn 2. maí n.k. Kökubasarinn er einn þáttur í góðgerðarviku sem krakkarnir eru að skipuleggja og helguð er Göngum saman.

Einnig eru þau að vinna að heimildarmynd um Göngum saman og brjóstakrabbamein sem verður frumsýnd í Háteigsskóla 13.maí 2009, tími auglýstur síðar allir velkomnir.Krakkarnir selja einnig boli sem Naked ape hefur hannað fyrir þau og rennur öll sala á bolunum til Göngum saman

Við hvetjum félaga og aðra velunnara að koma í Garðheima n.k. laugardag og styrkja þetta frábæra framtak krakkanna.

Vorganga Göngum saman 10. maí n.k.

Eftir Fréttir

Vorganga Göngum saman verður haldin í Laugardalnum í Reykjavík á mæðradaginn, sunnudaginn 10. maí kl. 11:00. Gengið verður frá Skautahöllinni.

Göngum saman, fögnum vori og njótum samveru.

Kynningarfundir á Norðurlandi gengu vel

Eftir Fréttir

Formaður Göngum saman Gunnhildur Óskarsdóttir hélt tvo kynningarfundi um félagið á Norðurlandi í vikunni. Á mánudagskvöldið fundaði hún með Dalvíkurkonum og var síðan á Akureyri á fimmtudag. Fundirnir tókust vel og urðu mjög fínar umræður á báðum stöðum. Þetta eru fyrstu kynningarfundirnir um félagið og reynslan af þeim sýnir að æskilegt væri að fara víðar með slíka fundi.

Formaður í heimsókn á Norðurlandi

Eftir Fréttir

Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman og Kristín Svavarsdóttir varaformaður tóku þátt í göngu með Dalvíkurdeildinni á mánudag og Akureyrardeildinni á þriðjudag. Mikill kraftur er í fólki á báðum stöðunum.

Göngukonur í snjónum á Akureyri á þriðjudagskvöldið:

Kynningarfundur um Göngum saman haldinn á Akureyri 2. apríl

Eftir Fréttir

Kynningarfundur um Göngum saman verður haldinn í sal Krabbameinsfélagsins á Akureyri, Glerárgötu 24, 2. hæð, fimmtudaginn 2. apríl kl. 17:00.

Þar mun Gunnhildur Óskarsdóttir formaður félagsins kynna markmið þess og áherslur. Þorgerður Sigurðar­dóttir og Anna Hermanns­dóttir munu segja frá starfsemi félagsins á Akureyri.

Allir áhugasamir um þetta mikilvæga málefni eru hvattir til að mæta á fundinn.

Lógó Göngum saman tilnefnt til markaðsverðlauna Ímark

Eftir Fréttir

Lógó Göngum saman sem Sigurborg Stefánsdóttir hannaði fyrir félagið hefur verið tilnefnt sem besta lógóið í flokknum Vöru- og firmamerki hjá Ímark. Verðlaunaafhending Ímark fer fram föstudaginn 27. febrúar n.k.

Lógóið okkar með brjóstunum flottu hefur vakið mikla athygli og prýðir m.a. boli, höfuðklúta og kort sem seld eru til styrktar Göngum saman.

Formaðurinn í kynningarheimsókn

Eftir Fréttir

Formaður Göngum saman Gunnhildur Óskarsdóttir heimsótti ásamt Jórunni Erlu Eyfjörð prófessor við HÍ Breakthrough Breast Cancer samtökin í London til að kynna sér starfsemi samtakanna. Breakthrough var stofnað árið 1991 og hefur vaxið mjög síðan. Hægt er að nálgast upplýsingar um samtökin á heimasíðu þeirra. Gunnhildur hefur tekið saman punkta um heimsóknina og má nálgast þá hér:

Breakthrough_heimsokn2009.pdf.

Lífshlaupið – Við tökum þátt!

Eftir Fréttir

Í dag 4. febrúar hefst Lífshlaupið – landskeppni í hreyfingu. Guðný Aradóttir gönguþjálfarinn okkar er búin að stofna Göngum saman sem fyrirtæki á síðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is og búa til eitt lið fyrir okkur. Það heitir: Lið 1 mánudagsgöngur. Það mega vera 10 í hverju liði. Við getum bara stofnað fleiri lið og svo vilja kannski einhverjir taka sig saman og stofna sitt eigið lið innan Göngum saman. En ef þið farið inn á www.lifshlaupid.is þá getið þið tengst liði 1 mánudagsgöngur. Ef það er ekki orðið fullbókað í það. Annars stofnið þið bara nýtt lið undir Göngum saman.Ef einhverjir vilja láta okkur sjá um að skrá hreyfingu sína undir okkar liði þá má senda Guðnýju upplýsingar á gudny@stafganga.is og hún skráir ykkur og hreyfinguna ykkar. Eins má prenta út eyðublað sem er á síðu Lífshlaupsins og afhenda henni á mánudögum í göngunni okkar í Reykjavík. 

Nýir félagar velkomnir – vikulegar göngur

Eftir Fréttir

Göngum saman stendur fyrir göngum fyrir félaga einu sinni í viku í Reykjavík, á Akureyri og á Dalvík. Einnig hefur verið gengið í Borgarbyggð og í Hveragerði og er það von okkar að fleiri bæjarfélög bætist í hópinn.

Rannsóknir sýna að hreyfing og útivera styrkir ónæmiskerfið og er því góð forvörn við alls kyns kvillum og sjúkdómum. Við hvetjum alla sem tök hafa á að leggja góðu málefni samstöðu og auka eigin hreysti og hreyfingu í leiðinni.

Allir þeir sem taka þátt í göngum á vegum félagsins eru hvattir til að skrá sig í félagið hér á heimasíðunni. Árgjaldið er 3000 kr. og hægt er að greiða í gegnum heimabanka.

 

Gönguhópur á Dalvík

Eftir Fréttir

Stofnaður hefur verið gönguhópur í Dalvíkurbyggð og ætlar hópurinn að sýna góðu málefni samstöðu og auka eigin hreysti og hreyfingu í leiðinni. Gönguhópurinn hittist fyrir framan Ráðhúsið á mánudögum kl. 17:00 og er gengið í u.þ.b. 30 mínútur.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Gunnarsdóttir í síma 8489442