Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Frábær ganga á Þingvöllum

Eftir Fréttir

Mánudaginn 20. júlí s.l. var Göngum saman boðið upp á göngu á Þingvöllum og var farin svokölluð eyðibýlaganga undir leiðsögn Magnúsar Halls Jónssonar landvarðar á Þingvöllum.

Þátttaka var mjög góð og gengið var í stórkostlegu veðri í fallegu umhverfi.

Reykjavíkurmaraþonið – áheit: skráningargjald hækkar 2. júlí

Eftir Fréttir

Nú fer að líða að Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem verður haldið
laugardaginn 22. ágúst.

Þann 2.júli næstkomandi hækkar skráningargjaldið í hlaupið. Félagar í Göngum
saman
ætla að ganga og hlaupa saman 10 og 21km. Við hvetjum sem flesta til að
taka þátt og skrá Göngum saman sem það góðgerðarfélag sem þeir vilja leggja lið.

Skráning fer fram á heimasíðu maraþonsins á marathon.is eða í gegnum islandsbanki.is

Auglýsing til að hvetja fólk til að leggja okkur lið er í pdf-skjalinu.

auglysing-marathon.pdf

Auglýsing eftir styrkumsóknum – Göngum saman 2009

Eftir Fréttir

Styrktarfélagið Göngum saman auglýsir eftir umsóknum um styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Áætlað er að veita allt að 5 milljónum króna til eins eða fleiri verkefna á árinu 2009.
Frá stofnun félagsins haustið 2007 hefur Göngum saman úthlutað alls 7
milljónum króna í rannsóknarstyrki, 3 milljónir árið 2007 og 4 milljónir árið 2008.

Umsóknir skulu berast í tölvupósti á netfangið styrkur hjá gongumsaman.is fyrir 1. september n.k. merkt: Styrkumsókn 2009.

Nánari upplýsingar um hvað þurfi að koma fram í umsóknum er að finna í pdf-skjalinu.

Auglysing-styrkur09.pdf

Nemendur í 10. bekk styrkja Göngum saman

Eftir Fréttir

Nemendur í 10. bekk Háteigsskóla í samvinnu við Félagsmiðstöðina 105 veittu Göngum saman 400 þúsund króna styrk við útskrift sína úr grunnskóla í dag. Krakkarnir höfðu m.a. safnað peningum með kossasölu á unglingaballi (50 kr. koss á kinn og 100 kr koss á munn),  kökubasar, áheitum í íþróttamaraþoni og með bolasölu en þau fengu til liðs við sig Nakta apann við hönnun og gerð mjög flottra stuttermabola sem seldust upp. Einnig unnu þau vandaða heimildamynd um Göngum saman og brjóstakrabbamein sem frumsýnd var í Háteigsskóla í maí s.l. við mjög góðar undirtektir. Göngum saman þakkar þessum frábæru ungmennum fyrir stuðninginn og dugnaðinn við að skipuleggja þetta átak og hrinda því í framkvæmd og öllum þeim sem lögðu þeim lið. Framlag þeirra mun renna beint í styrktarsjóð félagsins.

Dagatöl Göngum saman – 1000 krónur

Eftir Fréttir

Dagatöl (á vegg) Göngum saman voru að koma út en þau byrja í maí 2009 og ná fram á vor 2010. Skemmtilegt dagatal sem er tilvalin gjöf til vina og vandamanna. Kostar 1000 krónur og það fer allt í styrktarsjóð Göngum saman.

Dagatölin verða til sölu í göngunni næsta mánudag en þá verður hist við Kjarvalsstaði kl. 20. Hvetjum einnig fólk til að taka nokkur dagatöl og selja, t.d. á vinnustað sínum.

10. bekkingar í félagsmiðstöð 105 og mynd um Göngum saman

Eftir Fréttir

Það var mikil eftirvænting og skemmtileg stund í hátíðarsal Háteigsskóla í Reykjavík í fyrrakvöld þegar sýnd var heimildamynd sem 10 bekkingar höfðu gert um brjóstakrabbamein og styrktarfélagið Göngum saman. Myndin er eitt þeirra verkefna sem krakkarnir í félagsmiðstöðinni 105 hafa staðið fyrir í góðgerðarvikunni til styrktar Göngum saman.

 

Þessir krakkar geta allt – það var samróma álit þeirra sem voru við sýningu myndarinnar. Það eru Salvör Káradóttir, Inga Rán Reynisdóttir og Telma Ólafsdóttir sem eiga heiðurinn af gerð myndarinnar. Til hamingju stelpur, einstaklega vel að verki staðið og falleg nálgun. Helsti viðmælandi stelpnanna í myndinni var Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman en einnig töluðu þær við Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslækni og nokkra félaga í Göngum saman.

 

Klukkan 11 í kvöld hófst íþróttamaraþon sem krakkarnir standa fyrir og mun það vera  í alla nótt. Krakkarnir hafa verið að safna áheitum vegna maraþonsins og renna þau óskipt í styrktarsjóð Göngum saman. Með krökkunum vaka þrír starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar 105 og tveir foreldrar. Við óskum krökkunum góðs gengis og skemmtunar.

 

Á frumsýningu myndarinnar um brjóstakrabbamein og Göngum saman. Höfundar myndarinnar eru lengst til hægri á myndinni en með þeim eru m.a. Friðbjörn Sigurðsson læknir og Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman.

Rósa Björk heiðursvísindamaður Landspítalans 2009

Eftir Fréttir

 

Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur, einn af styrkþegum Göngum saman árið 2008, hefur verið valin heiðursvísindamaður Landspítalans 2009.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/29/visindamenn_arsins_a_landspitala/

Göngum saman óskar henni til hamingju og óskar henni áframhaldandi velfarnaðar í starfi.

Fyrstu vorgöngur Göngum saman gengu vel

Eftir Fréttir

Vorið góða grænt og hlýtt læðir fjöri um Lystigarðinn … á Akureyri

Góð þátttaka var í vísindarölti um Lystigarðinn á Akureyri á mæðradaginn. Þar voru meðal annars konur frá Dalvík og Reykjavík. Nærri 40 manns röltu um garðinn undir leiðsögn Björgvins Steindórssonar forstöðumanns Lystigarðsins. Eftir gönguna fór hópurinn í stutta gönguferð í nágrenni garðsins.

Í máli Björgvins kom margt forvitnilegt fram um starfsemi og upphaf Lystigarðsins. Meðal annars það að árið 1909 fengu konur land undir lystigarð á Akureyri og í framhaldi af því ræktuðu þær og gróðursettu plöntur. Árið 1912 var garðurinn stofnaður. Það voru konur sem létu drauminn rætast!

 

Í Reykjavík hittust tæplega 300 manns við Skautahöllina, söng saman og gekk um Laugardalinn undir góðri stjórn Guðnýjar Aradóttur. Það var góð stemming og vor í loftinu.

 

Í Lystigarðinum á Akureyi á mæðradaginn