Skip to main content
All Posts By

a8

Styrkþegi Göngum saman valinn ungur vísindamaður 2012 á Lsp

Eftir Fréttir

Sævar Ingþórsson, líffræðingur og doktorsnemi við HÍ sem hlaut styrk úr rannsóknasjóði Göngum saman á síðasta ári var valinn ungur vísindamaður ársins 2012 á Landspítala. Þetta var tilkynnt á uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum, Vísindum á vordögum, sem hófst í gær 25. apríl 2012 með opnun veggspjaldasýningar og vísindadagskrá.

Sævar lauk B.S. prófi í líffræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands 2008. Hann hóf doktorsnám í líf- og læknavísindum við læknadeild HÍ 2009 og starfar á Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum sem er rekin af Magnúsi Karli Magnússyni prófessor og Þórarni Guðjónssyni dósent.

Doktorsverkefni Sævars nefnist "Hlutverk sprouty próteina í stjórn EGFR boðleiða í brjóstaþekjufrumum" og er markmið þess að að rannsaka hlutverk og samskipti Sprouty-2 við EGFR týrósín kínasa viðtaka fjölskylduna í greinóttri formgerð brjóstkirtilsins og kortleggja áhrif yfirtjáningar og sívirkrar tjáningar viðtakanna í framþróun æxlisvaxtar í brjóstkirtli. Í rannsóknunum er notast við þrívíð frumuræktunarlíkön og frumulínur, bæði úr heilbrigðum vef og krabbameinsvef, ásamt frumulínu með stofnfrumueiginleika.

Göngum saman óskar Sævari til hamingju með viðurkenninguna og þennan góða árangur.

Hér sést Sævar Ingþórsson, ungur vísindamaður Landspítala-Háskólasjúkrahúss árið 2012 á kynningu Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum í febrúar s.l. í fræðslufundaröð Göngum saman "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini".

Frábær stemnig á gæðastund á Akureyri

Eftir Fréttir

Frábær stemning var á gæðastund Göngum saman sem haldin var í Keramikgalleríi Margrétar Jónsdóttur á Akureyri í dag. Hlín Reykdal hönnuður og Gunnhildur Óskarsdóttir formaður kynntu og seldu armböndin fallegu sem Hlín hannaði fyrir Göngum saman. Göngum saman konur á Akureyri undirbjuggu þessa góðu stund þar sem boðið var upp á veitingar og tónlist. Það er skemmst frá því að segja að armböndin runnu út og eru sama sem uppseld.

Innilegar þakkir til allra sem komu að þessari skemmtilegu stund og sérstakar þakkir til Margrétar fyrir að bjóða okkur til sín.

MH ingar afhentu Göngum saman 250 þúsund í styrktarsjóðinn

Eftir Fréttir

Nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð afhentu í dag Göngum saman 250 þúsund krónur sem var afrakstur af góðgerðarviku í skólanum. Í góðgerðarvikunni var ýmislegt gert til að afla fjár s.s. lukkuhjóli snúið daglega, haldinn flóamarkaður og hæfileikakeppni auk þess sem nokkrir nemendur söfnuðu áheitum. Leiklistarfélag MH studdi einnig góðgerðarvikuna með fjárframlagi.

Göngum saman þakkar innilega þetta frábæra framtak og höfðinglega styrk en upphæðin fer beint í styrktarsjóð félagsins.

Á myndinni eru Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnhildur Vigfúsdóttir frá Göngum saman og Vigdís Perla Maak nemandi í MH sem afhenti styrkinn.

Akureyrarkynning á armböndum til styrktar Göngum saman

Eftir Fréttir

Gæðastund á Akureyri kallast samkoma sem haldin verður á Akureyri föstudaginn 20. apríl kl. 16-18 til að kynna armböndin sem Hlín Reykdal hannaði til styrktar Göngum saman. Þær Gunnhildur Óskarsdóttir formaður félagsins og hönnuðurinn Hlín Reykdal koma til Akureyrar til að sýna og selja armböndin. Kynningin verður í Keramikgalleríi Margrétar Jónsdóttur, Gránufélagsgötu 48. Boðið verður upp á léttar veitingar og góða samverustund í fallega gallerínu hennar Margrétar.

Vinir Göngum saman á Norðurlandi eru hvattir til að nota tækifærið því armböndin sem eru framleidd í takmörkuðu upplagi eru að verða uppseld.

Góðgerðavika í MH

Eftir Fréttir

Nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð hafa verið með góðgerðarviku í skólanum alla vikuna. Ýmsar uppákomur hafa verið í vikunni og það er skemmtilegt að heyra hversu hugmyndarík krakkarnarir eru. Meðal þess sem boðið hefur verið upp á eru flóamarkaður og hæfaleikakeppni nemenda. Þá var lukkuhjólið á Matgarði alla dagana þar sem nemendur gátu freistað gæfunnar fyrir 500 krónur. Ágóða góðgerðavikunnar munu nemendu nota til styrktar Göngum saman.

Þessa skemmtilegu mynd af lukkuhjólinu tók Harpa Hreinsdóttir nemendi í MH fyrir okkur í vikunni.

Ánægjuleg stund í Kiosk í dag

Eftir Fréttir

Fjölmenni var í versluninni Kiosk í dag þegar armböndin sem Hlín Reykdal hannaði og gerði til styrktar Göngum saman voru kynnt. Mikil ánægja var með armböndin og þau runnu út. Armböndin verða til sölu í versluninni Kiosk, Laugavegi 65 næstu tvær vikur eða meðan birgðir endast. Rétt er þó að benda á að það er takmarkað upplag og góð sala dagsins sýnir að betra er að draga ekki að koma við í Kiosk til að kaupa armband.

Á kynningunni sungu félagar úr Fóstbræðrum nokkur lög við mikla ánægju viðstaddra.

Göngum saman þakkar Hlín Reykdal fyrir stuðning hennar við félagið í þessu skemmtilega verkefni. Við þökkum einnig oktett úr karlakórnum Fóstbræðrum sem sungu fyrir okkur í dag og öllum þeim mörgu konum sem komu og styrktu okkur.

Zontaklúbburinn Sunna styrkir Göngum saman

Eftir Fréttir

Zontaklúbburinn Sunna afhenti í gær Göngum saman 200 þúsund krónur í styrktarsjóð félagsins.

Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður tók við styrknum fyrir hönd félagsins. Er Zontasystrum þakkað innilega fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

Ungur hönnuður styrkir Göngum saman

Eftir Fréttir

Hlín Reykdal sem hefur getið sér gott orð í hönnun á skartgripum og fylgihlutum hefur hannað tvær gerðir af armböndum til styrktar Göngum saman. Verkefnið sem er í tilefni af fimm ára afmæli félagsins verður hleypt af stokkunum nú á fimmtudaginn, þ.e. 12. apríl í versluninni Kiosk á Laugavegi 65. Armböndin verða síðan til sölu í versluninni í apríl en við hvetjum fólk til að mæta á fimmtudaginn.

Það er mikill fengur fyrir Göngum saman að fá Hlín með í þetta verkefni og er henni þakkað ánægjulegt samstarf.

Göngum saman félagar upplýstari eftir „Vísindi á laugardegi“

Eftir Fréttir

Í dag var þriðji og síðasti fræðslufundur Göngum saman í röðinni „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“. 

Samstarfshópur á Landspítalanum um rannsóknir á brjóstakrabbameini tóku á móti félagsmönnum Göngum saman og öðrum áhugasömum og kynntu fyrir gestum rannsóknir hópsins og mikilvægi grunnrannsókna við greiningu og meðferð brjóstakrabbameina. Góður rómur var gerður að örfyrirlestrum Óskars Þórs Jóhannssonar krabbameinslæknis, Rósu Bjarkar Barkardóttur sameindalíffræðings, Aðalgeirs Arasonar líffræðings, Ingu Reynisdóttur sameinda- og frumulíffræðings og Bjarna Agnars Agnarssonar meinafræðings. Þá var gestum boðið að skoða aðstöðuna á Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði og ræða við starfsfólkið.

Mikil ánægja var með fræðslufundinn í dag eins og þá fyrri og vil Göngum saman þakka vísindafólkinu sem hefur gert fundina svo fræðandi og skemmtilega.

Vísindi á laugardegi á Landspítala næsta laugardag kl. 13

Eftir Fréttir

Á laugardaginn verður þriðji og síðasti fræðslufundurinn í fræðslufundaröð Göngum saman um gildi grunnrannsókna á brjóstakrabbameini, „Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini“.

Laugardaginn 17. mars kl. 13 í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut (í tengibyggingunni milli Barnaspítalans og Kvennadeildar) mun samstarfshópur um rannsóknir á brjóstakrabbameini á Landspítalanum taka á móti félögum Göngum saman og öðrum áhugasömum.  Þau Aðalgeir Arason líffræðingur, Bjarni Agnar Agnarsson meinafræðingur og yfirlæknir Rannsóknastofu í meinafræði, Inga Reynisdóttir, sameinda- og frumulíffræðingur, Óskar Þór Jóhannsson krabbameinslæknir og erfðaráðgjafi og Rósa Björk Barkardóttir, sameindalíffræðingur munu hver fyrir sig halda einn örfyrirlestur (hver fyrirlestur 10 mínútur) sem tengjast greiningu (Bjarni), meðferð (Óskar) og rannsóknum á brjóstakrabbameini (Aðalgeir, Inga og Rósa). Í framhaldinu verður opið hús hjá Rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði þar sem gestum gefst kostur á að hitta starfsfólk og fræðast um stofnunina. Þau munu leiða okkur í gegnum greiningarferil lífssýnis sem tekið er þegar grunur vaknar um krabbamein. Einnig verður sýnd einangrun á erfðaefni úr blóðsýnum og ferill þess gegnum raðgreiningatæki.

Boðið verður upp á hressingu.

Auðveldast er að fara inn í Barnaspítala Hringsins og inn í tengibygginguna þaðan.

Allir velkomnir.