HugurAx (www.hugurax.is) hefur í gegnum árin styrkt góðgerðar- og líknarmálefni með ýmsum hætti. Það er trú fyrirtækisins að takmörkuðum fjármunum sé betur varið fari þeir á einn stað í stað margra og veitir HugurAx því einn styrk í lok hvers árs, í stað þess að veita marga smærri styrki yfir árið.
Í ár er það Göngum saman og sameiginleg Jólaúthlutun Reykjavíkurdeildar Rauðakrossins, hjálparstarfs kirkjunnar og mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur sem hljóta styrkinn. Gunnhuldur Óskarsdóttir formaður tók við styrknum fyrir hönd Göngum saman.
Avon umboðið á Íslandi styrkir Göngum saman. Við kaup á vörum frá Avon mun renna rausnarleg upphæð af hverri sölu til Göngum saman. Munið að við kaup þarf að nefna Göngum saman. Avon hefur framleitt vandaðar snyrtivörur í yfir 120 ár. Úrvalið er mikið: húðvörur, förðunarvörur, ilmvörur o.fl. Flottar jólagjafapakningar eru á tilboði nú fyrir jól. Avon, Dalvegi 16, Kópavogi (keyrt inn við Europris og innst inn í götuna)
Kristbjörg Marteinsdóttir félagi í Göngum saman og formaður fjáröflunarnefndar félagsins lést 11. nóvember s.l. tæplega 45 ára að aldri.
Kittý mætti fyrst í mánudagsgöngu hjá styrktarfélaginu Göngum saman vorið 2008, þá hafði brjóstakrabbameinið sem hún hafði greinst með rúmum fjórum árum áður tekið sig upp. Hún var ákveðin í að vinna bug á því og fann að göngur höfðu góð áhrif á hana, bæði á líkama og sál. Hún fann sig í Göngum saman og mætti með glöðum hópi vinkvenna sinna og gekk með okkur vikulega á meðan hún gat. Kittý ákvað að fara i Avon gönguna í New York í okótóber fyrir rúmu ári síðan. Þar gekk hún eitt og hálft maraþon og safnaði áheitum í styrktarsjóð Göngum saman. Þessi mikla ganga var mikið afrek fyrir hana sem var í erfiðri lyfjameðferð. Á árlegri styrkveitingu Göngum saman síðar um haustið afhenti hún okkur stolt háa upphæð sem vinir og velunnarar höfðu heitið á hana, en það sem skipti félagið ekki minna máli var að hún ákvað að vera virkur félagi. Kittý vildi hafa áhrif og kom með hugmyndir og nýjar víddir inn í félagið. Hún vildi leggja sitt að mörkum til að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini á Íslandi og gerði það svo sannarlega. Hún var formaður fjáröflunarnefndar Göngum saman og hugmyndir hennar voru óþrjótandi. Að hennar frumkvæði mun félagið standa fyrir kvöldgöngu á safnanótt á vetrarhátíð Reykjavíkur í febrúar n.k. Það voru forréttindi að kynnast henni og við félagar hennar í Göngum saman færum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur og þökkum fyrir samfylgdina.
Á næsta mánudagskvöld, 16. nóvember, munum við hittast framan við Hallgrímskirkju og ganga í klst. um miðbæinn. Fjölmennum og göngum saman. Allir velkomnir.
Göngum saman á Akureyri mun ganga frá Kirkjugörðum Akureyrar í vetur. Mæting við fremsta hliðið kl. 17:30. Allir velkomnir.
Styrkveiting Göngum saman fór fram nú í eftirmiðdaginn við hátíðlega athöfn í sal Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins. Við athöfnina söng 10 ára stúlka, Hólmfríður Hafliðadóttir og eins tóku félagar í Fóstbræðrum lagið.
Að þessu sinni hlutu fjórir aðilar rannsóknastyrki, samtals 5 milljónir. Styrkþegar Göngum saman árið 2009 eru:
-
dr. Inga Reynisdóttir forstöðumaður á Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
- dr. Jórunn Erla Eyfjörð prófessor í erfðafræði
-
dr. Rósa Björk Barkardóttir klínískur prófessor á Landspítala-háskólasjúkrahúsi
- ·Valgarður Sigurðsson doktorsnemi við HÍ
Heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir afhenti styrkina.
Fjölmenni var við athöfnina. Myndir frá henni eru komnar í myndaalbúmið.
Styrkþegar Göngum saman árið 2009 ásamt Gunnhildi Óskarsdóttur formanni félagsins og Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra.
Í tengslum við styrktargönguna um daginn gerði Göngum saman samkomulag við Blómaval og mun hluti andvirðis Erika sem seljast hjá fyrirtækinu fara í styrktarsjóð Göngum saman. Haustið er tími Erika og nú getum við stutt gott málefni um leið og við kaupum okkur blóm.
Það er óhemjugaman þegar yngri kynslóðin leggur sitt að mörkum til góðgerðamála og við hjá Göngum saman höfum verið einstaklega gæfusöm hvað þetta varðar. Hver man ekki eftir stelpunum í Laugarnesinu með tombólurnar og 10. bekkingunum í Háteigsskóla. Ekki má heldur gleyma öllum krökkunum og unglingunum sem hjálpuðu í stjálfboðastarfi við framkvæmd styrktargöngunnar sem fram fór víða um land um daginn.
Og nú hafa tveir 12 ára strákar úr Vestmannaeyjum bæst í þennan frækilega hóp. Lúkas Jarlsson og Jóel Þórir Ómarsson hafa spilað á saxófónana sína fyrir fólk í Eyjum og safnað þannig pening sem þeir aftentu Göngum saman í styrktarsjóðinn, alls 30 þúsund krónur. Frábært hjá strákunum. Það er viðtal við strákana í Fréttablaðinu í morgun.
Um þúsund manns gengu á sjö stöðum á landinu í dag til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini þ.e. í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Mývatnssveit, Egilsstöðum, Höfn og í Vestmannaeyjum. Mikil stemning var á öllum stöðum og ánægjulegt að sjá svo marga leggja málefninu lið. Göngum saman þakkar innilega öllum þeim sem tóku þátt í göngunni og/eða lögðu félaginu lið í tengslum við hana.
Úr göngunni í Elliðaárdalnum (sjá fleiri myndir í myndaalbúminu):
Nýlegar athugasemdir