Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Fjölskylduganga í Laugardalnum n.k. sunnudag

Eftir Fréttir

Í tilefni mæðradagsins n.k. sunnudag 9. maí býður Göngum saman ungum sem öldnum í klukkustundargöngu um Laugardalinn, lagt verður af stað frá Skautahöllinni kl. 11.

Nú er veggspjald með auglýsingu um gönguna tilbúið og hægt er að nálgast það hér.

GongumSaman_A4_Vor.pdf.

Gangan er gjaldfrjáls en tekið verður við frjálsum framlögum í styrktarsjóðinn auk þess sem skemmtilegur varningur verður seldur fyrir og eftir göngu og rennur andvirði sölunnar einnig í styrktarsjóðinn.

Gangan markar upphafið að undirbúningi fyrir Stóru styrktargönguna 5. september næstkomandi en þá verður gengið víða um land.

Vinsamlega látið sem flesta vita af göngunni.

Fjölmennum og göngum saman í vorinu.

                                       Frá vorgöngunni á mæðradaginn 2009.

Mjög góður fundur á Akureyri 1. maí

Eftir Fréttir

Mjög góð mæting var á vel heppnaðan morgunverðarfund Göngum saman á Akureyri 1. maí. Fimmtíu manns mættu á fundinn sem byrjaði á dásamlegum morgunverði. Sigríður Sía Jónsdóttir bauð fólk velkomið og síðan sagði Gísli Sigurgeirsson frá séra Matthíasi Jochumssyni og Sigurhæðum. Gunnhildur Óskarsdóttir og Margrét Baldursdóttir kynntu síðan félagið og Þorgerður Sigurðardóttir og Guðný Ólafsdóttir sögðu frá starfinu á Akureyri og á Dalvík. Að lokum hélt Anna Jóna Guðmundsdóttir sálfræðikennari og sérfræðingur í jákvæðri sálfræði frábæran fyrirlestur um hamingjuna og hvernig við getum verið hamingjusamari. Með það fóru allir út í vorið sem er greinilega komið á Akureyri.

Kynningarfundur og fyrirlestur á Akureyri 1. maí

Eftir Fréttir

 Göngum saman boðar til morgunverðarfundar laugardaginn 1. maí 2010 kl. 10:30 á Sigurhæðum, neðan við Akureyrarkirkju, aðkoma frá Hafnarstræti. Tilgangur fundarins er að kynna starfsemi félagsins á landsvísu og ekki síst á Norðurlandi.1. maí er safna­dagur á Akureyri og á Sigurhæðum verður dagurinn tileinkaður ,,Konum í húsi skáldsins”.Dagskrá fundarins:·        Anna Jóna Guðmundsdóttir sálfræðikennari og sérfræðingur í jákvæðri sálfræði verður með erindi um hamingjuna og hvernig við getum verið hamingjusamari.·        Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman kynnir félagið.·        Fulltrúar Akureyrar- og Dalvíkurdeildar segja frá starfinu á Norðurlandi.Glæsilegur morgunverður verður fram borinn gegn vægu verði.Andvirðið rennur til félagsins. 

Vorganga Göngum saman sunndaginn 9. maí

Eftir Fréttir

Á mæðradaginn, sunnudaginn 9. maí, efnum við til vorgöngu fyrir alla fjölskylduna í Laugardalnum. Lagt verður af stað frá Skautahöllinni kl. 11 og gengið um dalinn í um það bil klukkustund.
Gangan er gjaldfrjáls en tekið verður við frjálsum framlögum í styrktarsjóðinn auk þess sem skemmtilegur varningur verður seldur fyrir og eftir göngu og rennur andvirði sölunnar einnig í styrktarsjóðinn.

Gangan markar upphafið að undirbúningi fyrir Stóru styrktargönguna 5. september næstkomandi en þá verður gengið víða um land. Við minnum á að félagar í Göngum saman á höfuðborgarsvæðinu ganga reglulega öll mánudagskvöld kl. 20 til undirbúnings fyrir Stóru haustgönguna. Um þessar mundir er gengið í Elliðaárdalnum.

Frá vorgöngunni á mæðradaginn 2009.

Breyttur göngustaður og nýtt fyrirkomulag í göngum í Rvík

Eftir Fréttir

Nú eru vikulegu göngurnar í Reykjavík komnar í páskafrí og þegar við hittumst á ný, mánudaginn 12. apríl, er mæting á Sprengisandi v/Reykjanesbraut en þaðan komumst við í undirgöngum yfir í Elliðaárdalinn.

Þá verður einnig sú nýbreytni í göngunum að við verðum með tvo hópa sem munu ganga mishratt þannig að fleiri ættu að finna sér hraða við sitt hæfi. Hóparnir leggja af stað á sama tíma og eins og venjulega leiddir af góðu fólki sem stýrir hraðanum og ákveður hvar gengið er. Í lok göngunnar hittast allir og teygja saman.

Mikill kraftur í starfi Göngum saman

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman í gærkvöldi var vel sóttur. Fundarstjóri var Sæmundur Runólfsson og fundarritari Heiðrún Kristjánsdóttir. Formaður félagsins Gunnhildur Óskarsdóttir var endurkjörin með lófaklappi. Sú endurnýjun varð í stjórn félagsins að Helga Haraldsdóttir kom inn i stað Rannveigar Rúnarsdóttur og Ragnhildur Zoëga var kosin í varastjórn. Á aðalfundinum kom vel fram hversu mikið óeigingjarnt starf félagsmenn hafa unnið fyrir félagið á árinu og þakkaði formaðurinn fyrir það.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf var fræðslumyndin Göngum saman og brjóstakrabbamein sýnd við góðar undirtektir. Myndina gerðu 10. bekkingar í Háteigsskóla í fyrra og var gerð henna hluti af verkefni í góðgerðaviku sem unnið var í samstarfi við Félagsmiðstöðina 105 en þau ákváðu að safna fé til styrktar Göngum saman. Í myndinni fjalla krakkarnir um brjóstakrabbamein og stofnun styrktarfélagsins Göngum saman. Þau byggja myndina upp á viðtölum, m.a. við Gunnhildi Óskarsdóttur formann félagsins og Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslækni.

Aðalfundur Göngum saman mánudaginn 15. mars

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman verður haldinn mánudaginn 15. mars 2010 kl. 20:00
í sal Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins Skógarhlíð 8, Reykjavík.
 
Dagskrá
1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar félagsins kynntir og bornir upp til samþykktar.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
4. Kosning skoðunarmanna reikninga.
5. Ákvörðun árgjalds.
6. Önnur mál.
 
Allir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Eftir aðalfundinn verður sýnd heimildamynd um Göngum saman og brjóstakrabbamein sem 10. bekkingar í Háteigsskóla veturinn 2008-2009 gerðu.

Fjölmennum,
stjórn Göngum saman

Vel heppnuð vasaljósaganga

Eftir Fréttir

Vasaljósaganga Göngum saman á safnanótt var einstaklega vel heppnuð enda lék veðrið við göngufólk. Gengið var frá Þjóðminjasafni og niður á Ægissíðu þar sem vasaljósin fengu að njóta sín. Göngufólk tók lagið í göngunni sem endaði í Vesturbæjarlaug sem var böðuð bleikum ljósum. Í anddyri Vesturbæjarlaugar var boðið upp á heitt súkkulaði.

Frumherji færir Göngum saman góða gjöf

Eftir Fréttir

Í dag afhenti Orri Hlöðversson forstjóri Frumherja Gunnhildi Óskarsdóttur formanni Göngum saman 500 vasaljós með merki félagsins. Ljósin sem Bros lét sérhanna fyrir Göngum saman, verða seld í Vasaljósagöngu félagsins á Safnanótt þann 12. febrúar n.k. Frumherji gefur ljósin sem seld verða á 1.000 krónur og rennur hver króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Orri notaði tækifærið þegar Gunnhildur var með bílinn sinn í skoðun hjá Frumherja að færa henni ljósin. Kann Göngum saman Frumherja bestu þakkir fyrir góða gjöf.

Göngum saman á Safnanótt föstudaginn 12. febr

Eftir Fréttir

Vasaljósaganga Göngum saman verður á Safnanótt 2010. Á föstudagskvöldið 12. febrúar n.k. mun gangan hefjast við Þjóðminjasafnið, gengið verður um vesturbæinn og að Vesturbæjarsundlaug sem verður opin til miðnættis fyrir þátttakendur göngunnar. Lagt verður af stað eftir síðasta viðburð í safninu (um kl. 22:15) en við hvetjum fólk til að mæta tímanlega og kíkja á safnið áður en gangan hefst. Göngum saman verður með lítil vasaljós með merki félagsins til sölu í tilefni göngunnar og rennur allur ágóðinn í styrktarsjóð félagsins.

Fjölmennum og hvetjum fólk í kringum okkur til að mæta.