Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Göngum saman á Menningarnótt og í maraþoninu

Eftir Fréttir

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í gær og hlupu 40 þátttakendur fyrir styrktarfélagið Göngum saman, til samans fóru þau 471 km og söfnuðu fyrir félagið yfir 600 þúsund krónur. Við þökkum öllu þessu fólki fyrir svo og öllum þeim sem hétu á þau.

Á Menningarnótt var Göngum saman með bás á Sirkusreitnum á Laugavegi, rétt neðan við Klapparstíginn, þar sem seldar voru möffins og djús ásamt bolum, buffum, klútum og kortum Göngum saman. Það var mikil stemming í kringum básinn og margir komu við og styrktu þetta góða málefni. Einnig var verið að vekja athygli fólks á styrktargöngunni 5. september n.k. Þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmdina.

Umsóknafrestur í styrktarsjóð Göngum saman er 1. sept. n.k.

Eftir Fréttir

Rannsóknastyrkjum verður úthlutað úr styrktarsjóði Göngum saman í fjórða sinn í október n.k. og er áætlað að úthluta alls 5 milljónum króna.

Auglýst er eftir umsóknum og rennur fresturinn út 1. september 2010. Umsóknum skal skilað á sérstöku umsóknareyðublaði sem er að finna hér á heimasíðu félagsins (styrkumsokn_gongumsaman_2010.doc) og skal senda það sem viðhengi á netfangið styrkir hjá gongumsaman.is merkt – Styrkumsókn 2010 -.

Hér er að finna auglýsinguna um styrki félagsins:auglysing-styrkur10.doc

Reykjavíkurmaraþonið – skráningargjald hækkar 2. júlí

Eftir Fréttir

Reykjavíkurmaraþonið – áheit: skráningargjald hækkar 2. júlí

Nú fer að líða að Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem verður haldið
laugardaginn 21. ágúst.

Þann 2.júli næstkomandi hækkar skráningargjaldið í hlaupið. Félagar í Göngum
saman
ætla að ganga og hlaupa saman 10 og 21km. Við hvetjum sem flesta til að
taka þátt og skrá Göngum saman sem það góðgerðarfélag sem þeir vilja leggja lið.

Skráning fer fram á heimasíðu maraþonsins á http://www.reykjavikurmarathon.is/reykjavikurmaraton

Kvennahlaupið í Viðey!

Eftir Fréttir

Í ár bætist við einn hlaupastaður kvennahlaupsins á höfuðborgarsvæðinu, því nú verður í fyrsta sinn boðið upp á að hlaupa 3km hring í Viðey. Göngum saman ætlar að fjölmenna í Kvennahlaupið í Viðey og taka þátt í hátíðahöldum dagsins.
Upphitun með Guðnýju Aradóttur hefst fyrir framan Viðeyjarstofu kl.12:30 og hlaupið verður ræst kl.13:00.Skráning fer fram á staðnum og jafnframt verður Kvennahlaupsbolurinn til sölu í Viðey. Skráningargjald er kr.1.250.- og er bolur og verðlaunapeningur innifalinn auk þess sem allir þátttakendur fá Kristal frá Ölgerðinni og Weetabix hollustukex.Fyrsta ferð frá Skarfabakka er kl.11:15 og svo er siglt korter yfir heila tímann fram eftir degi. Ferjutollur fyrir fullorðna er kr.1000.- fyrir fullorðna og kr.500.- fyrir börn. 

Gengið í Öskjuhlíðinni í júní, fræðsluganga 28. júní

Eftir Fréttir

Í Reykjavík verður gengið frá Perlunni í júnímánuði.

Síðasta gangan fyrir sumarfrí verður 28. júní og verður sú ganga með aðeins öðru sniði en venjulega en þá mun dr. Hreggviður Norðdahl, jarðfræðingur leiða gönguna og fræða okkur um jarðsögu Öskjuhlíðarinnar. Fræðslugangan er gjaldfrjáls en tekið verður á móti frjálsum framlögum í styrktarsjóðinn. Mánudagsgöngur í Reykjavík hefjast svo aftur eftir verslunarmannahelgi.

Akureyringar gengu með Dalvíkingum á mánudaginn

Eftir Fréttir

Fimm konur úr Akureyrardeild Göngum saman heimsóttu Dalvíkurdeildina og gengu með þeim í vikulegri göngu þeirra síðast liðið mánudagskvöld. Eftir gönguna var sest inn á kaffiteríuna í Menningarhúsinu Bergi og spjallað lengi. Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og stefna Dalvíkurkonur á að ganga með Akureyrardeildinni eitthvert þriðjudagskvöldið og fara á kaffihús á eftir.

Inner Wheel færir Göngum saman höfðinglega gjöf

Eftir Fréttir

Félagskonur Inner Wheel í Reykjavík færðu í gær Göngum saman höfðinglega peningagjöf sem rennur beint í styrktarsjóð félagsins. Sigurveig Erlingsdóttir forseti Inner Wheel afhenti Gunnhildi Óskarsdóttur formanni Göngum saman gjöfina.

Göngum saman þakkar innilega fyrir þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

Á myndinni eru f.v. Helga Jónasdóttir, Sigurveig Erlingsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir, Margrét Erlendsdóttir og Ragnhildur Vigfúsdóttir

Fjölmenni í Laugardalnum í morgun

Eftir Fréttir

Mikið var gaman að ganga saman í Laugardalnum í morgun. Þangað mættu margir, ungir sem aldnir og nutu þess að ganga í vorblíðunni í Reykjavík. Gengið var um Laugardalinn í um klukkustund og var góð stemming í göngunni eins og sjá má á myndunum sem komnar eru inn í myndaalbúmið, það skín gleði úr hverju andliti.

Þetta er í annað sinn sem Göngum saman skipurleggur vorgöngu á mæðradaginn og er hún hugsuð sem upphafið af undirbúningi stóru styrktargöngunnar sem verður 5. september n.k. á nokkrum stöðum á landinu.